Erlent

Baráttan gegn berklum hefur mistekist

Tekur lyfin sín Alþjóðleg heilbrigðisyfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að grannt sé fylgst með því þegar berklasjúklingar taka lyf.nordicphotos/AFP
Tekur lyfin sín Alþjóðleg heilbrigðisyfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að grannt sé fylgst með því þegar berklasjúklingar taka lyf.nordicphotos/AFP

Alþjóðleg herferð gegn berklum hefur mistekist. Sérfræðingar segja nauðsynlegt að grípa til róttækra aðgerða.

Á síðasta ári smituðust meira en níu milljónir manna af berklum. Tvær milljónir þeirra létu lífið af völdum þessa sjúkdóms, sem aldrei í sögu mannkyns hefur hrjáð fleira fólk en einmitt nú.

Þetta kom fram í sérhefti breska læknatímaritsins Lancet nú í vikunni. Árum saman hafa Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin WHO og samstarfsaðilar hennar reynt að draga úr útbreiðslu berkla með því að fylgjast vel með því að sjúklingar taki lyfin sín. Þetta hefur ekki breyst þótt stofnunin hafi fyrir tveimur árum áttað sig á því að þessi aðferð dragi ekki úr útbreiðslunni svo neinu nemi.

Þeir sem til þekkja segja berkla ekki eingöngu vera heilbrigðisvandamál, heldur tengist útbreiðsla þeirra mjög fátækt. Berklar breiðast einkum út á stöðum þar sem of margt fólk býr við erfið skilyrði og hreinlæti er ábótavant. Baráttan gegn berklum þurfi því að taka fleiri þætti með í reikninginn, svo sem húsakynni, menntun og samgöngur.

„Forgangsmál til að hafa stjórn á útbreiðslu berkla er að bæta lífsskilyrði og hagvöxt,“ segir Philip Stevens, sérfræðingur hjá hugmyndaveitunni International Policy Network í London. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×