Innlent

Öll málin berast saksóknara í einu

Ólafur Þór Hauksson
Ólafur Þór Hauksson
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, á ekki von á sligandi álagi á starfsmenn sína þegar rannsóknarnefnd Alþingis sendir saksóknara á næstunni yfirlit yfir alla þá gjörninga í aðdraganda bankahrunsins sem nefndin telur hafa verið refsiverða.

„Ég reikna með að margt af því sem þeir tæpa á séu mál sem þegar er byrjað á hér," segir Ólafur. Nefndin hafi hins vegar ekki sent mál til saksóknara jafnóðum og þau hafi uppgötvast og því sé í raun ómögulegt að segja hvað nefndarmenn hafi uppgötvað við skýrslusmíðina. Nú styttist óðum í að skýrslan komi út og er þessa stundina verið að leggja lokahönd á síðustu kaflana. Einn þeirra er sérstakur kafli um þau mál sem nefndin telur ástæðu til að saksóknari taki til rannsóknar. Annar er kafli þar sem nefndin fer yfir það hverja hún telur hafa gerst seka um vanrækslu í starfi.

Prentuð útgáfa skýrslunnar verður í níu bindum og yfir 2.000 blaðsíður. Vefútgáfa hennar verður öllu lengri, og verður þar meðal annars hægt að lesa í heild sinni athugasemdir þeirra tólf sem fengu bréf frá nefndinni. Athugasemdirnar eru um 500 blaðsíður.

Þá verður sérstakur kafli í skýrslunni um hagsögu Íslands frá 1990. Í skýrslunni verður mikið um gröf og skýringarmyndir. Ekki fást enn upplýsingar um það hvenær von er á skýrslunni. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×