Tveir af mönnunum fimm sem voru í morgun dæmdir fyrir umsvifamikinn innflutning á kókaíni frá Spáni til Íslands voru einnig dæmdir fyrir peningaþvætti vegna sölu fíkniefna.
Í dómnum kemur fram að samkvæmt greiningu lögreglu eyddi Orri Freyr Gíslason á árinu 2009 og fram í mars 2010 um það bil 8,5 milljónum króna umfram þær tekjur sem hann var með skráðar í skattskýrslu. Við rannsókn málsins lagði lögregla jafnframt hald á tæpar 2,9 milljónir króna sem geymdar voru í bankahófli sem var skráð á Orra.
Guðlaugur Agnar geymdi hins vegar tæpar 3,6 milljónir inni á bankahólfi í eigu föður síns auk skartgripa sem lögreglan telur að séu um 2ja milljóna króna virði. Að auki reyndust 1,1 milljón króna inni á bankareikningum hjá Byr sparisjóði í nafni Guðlaugs Agnars.
Það var meðal annars vegna greiningar lögreglu á fjármálum þeirra Orra Freys og Guðlaugs Agnars og þeirra peninga og skartgripa sem fundust í bankahólfum, auk peninga inni á bankareikningnum, sem sannað þótti að þeir hefðu stundað fíkniefnasölu.