Körfubolti

NBA í nótt: Miami fór létt með New Jersey

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wade, James og Bosh slökuðu á á bekknum í fjórða leikhluta í gær og sögðu brandara á meðan að varamenn Miami kláruðu New Jersey Nets.
Wade, James og Bosh slökuðu á á bekknum í fjórða leikhluta í gær og sögðu brandara á meðan að varamenn Miami kláruðu New Jersey Nets. Mynd/AP

Fjórir leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þar sem að stórlið Miami fór létt með að vinna New Jersey Nets sem var ósigrað fyrir leik liðanna í nótt.

Þríeykið öfluga í Miami átti góðan leik í nótt. LeBron James skoraði 20 stig og þeir Chris Bosh (18 stig) og Dwayne Wade (17 stig) voru skammt undan er Miami vann öruggan sigur, 101-78.

Þeir Bosh og Wade hvíldu meira að segja í fjórða leikhluta en James lék lítinn hluta af honum. Hann var þar að auki með sjö fráköst og sjö stöðsendingar.

Þetta var þriðji sigur Miami í röð síðan að liðið tapaði fyrir Boston í fyrsta leik í síðasta mánuði. Miami sýndi afar öflugan sóknarleik í nótt og var til að mynda með 68 prósenta skotnýtingu í fyrri hálfleik. Þríeykið hafði þá skorað 41 stig.

Brook Lopez skoraði 20 stig fyrir New Jersey og nýliðinn Derrick Favours var með þrettán stig og þrettán fráköst. Þrátt fyrir að liðið tapaði í nótt má nýi eigandi liðsins, Rússinn Mikhail Prokhorov, vera sáttir við sitt lið enda vann það aðeins tólf af 82 leikjum sínum allt síðasta tímabil og töpuðu fyrstu átján leikjum sínum síðasta tímabil.

Dallas vann LA Clippers, 99-83, á útivelli. Ótrúlegasta skot leiksins átti Jason Kidd sem skoraði þriggja stiga flautukörfu innan eigin þriggja stiga línu, þvert yfir völlinn, í lok fyrri hálfleik.s

Caron Butler skoraði sautján stig fyrir Dallas og Shawn Marion var með tólf, þar af tíu í fjórða leikhluta.

Utah vann Oklahoma City, 120-99. Paul Millsap fór mikinn fyrir Utah og var með 30 stig og sextán fráköst. Deron Williams bætti við sextán stigum og fimmtán stoðsendingum. Þetta var kærkominn sigur fyrir Utah sem með tapi hefði jafnað verstu byrjun félagsins á tímabilinu í 31 ár.

LA Lakers vann Golden State, 107-83, í Kaliforníuslag. Pau Gasol var með 26 stig og tólf fráköst fyrir Lakers og Kobe Bryant með 20 stig. Lakers er enn ósigrað á leiktíðinni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×