Íslenski boltinn

Kjartan Henry búinn að skora 67 prósent markanna í Evrópukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason.
KR-ingurinn Kjartan Henry Finnbogason hefur verið jafn sjóðheitur upp við markið í Evrópukeppninni í sumar og hann er búin að vera ískaldur í leikjum á móti íslenskum liðum í Pepsi-deildinni og VISA-bikarnum.

Kjartan Henry jafnaði félagsmet KR með því að skora sitt fjórða Evrópumark í sumar en hann náði því með því að skora tvö mörk í seinni leiknum á móti Karpaty L'viv frá Úkraínu.

Kjartan Henry hafði áður skorað í báðum leikjunum á móti norður-írska liðinu Glentoran og var því með 4 mörk á 335 mínútum í Evrópukeppninni í sumar sem gera 83,8 mínútur á milli marka.

Kjartan Henry hefur aftur á móti aðeins náð að skora 2 mörk í 13 leikjum sínum í deild og bikar þrátt fyrir að hafa verið í 877 mínútur inn á vellinum.

Það hafa því liðið 438,5 mínútur milli marka Kjartans Henry á Íslandi í sumar.

Bæði mörkin hans komu í eina og sama leiknum á móti Stjörnunni á Stjörnuvellinum í maí en síðan þá hefur hann leikið tíu leiki í Pepsi-deild karla og VISA-bikarnum án þess að ná að skora eða í alls 744 mínútur.

Leikir Kjartans á móti íslenskum liðum 2010

Leikir - 13

Mínútur - 877

Mörk - 2

Mínútur milli marka - 438,5

Leikir Kjartans á móti erlendum liðum 2010

Leikir - 4

Mínútur - 335

Mörk - 4

Mínútur milli marka - 83,8






Fleiri fréttir

Sjá meira


×