Körfubolti

NBA í nótt: Dallas stöðvaði Boston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dirk Nowitzky og Jason Terry í leiknum í nótt.
Dirk Nowitzky og Jason Terry í leiknum í nótt. Mynd/AP

Dallas Mavericks stöðvaði sigurgöngu Boston Celtics í NBA-deildinni í körfubolta í nótt með tveggja stiga sigri í leik liðanna, 89-87.

Dirk Nowitzky skoraði 25 stig, þar á meðal körfuna sem tryggði Dallas sigurinn tæpum 20 sekúndum fyrir leikslok.

Jason Terry bætti við sautján stigum fyrir Dallas og Tyson Chandler var með tólf stig og þrettán fráköst.

Hjá Boston var Paul Pierce stigahæstur með 24 stig en Kevin Garnett var með átján stig og fimmtán fráköst. Rajon Rondo var með ellefu stig og fimmtán stoðsendingar en það dugði ekki til.

Boston var með fimm stiga forystu þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka, 87-82, en Boston náði að jafna metin áður en Nowitzky skoraði sigurkörfuna í leiknum.

Memphis vann Phoenix, 109-99. Zach Randolph var með 23 stig og 20 fráköst. Þetta var hans fimmti 20/20-leikur á tímabilinu.

Chicago vann Denver, 94-92. Derrick Rose var með átján stig, þar af átta í fjórða leikhluta. Denver var með sex stiga forystu um miðjan fjórða leikhluta en þá fóru Rose og félagar á fullt. Carmelo Anthony, leikmaður Denver, var stigahæstur á vellinum með 32 stig.

San Antonio vann Charlotte, 95-91. Manu Ginobili skoraði 26 stig fyrir San Antonio sem hefur nú unnið fjóra leiki í röð.

Orlando vann Atlanta, 93-89. Dwight Howard var með 27 stig og ellefu fráköst fyrir Orlando. Joe Johnson var með 23 stig fyrir Atlanta sem hefur nú tapað tveimur í röð eftir að hafa unnið fyrstu sex leiki tímabilsins.

Golden State vann Toronto, 109-102, þrátt fyrir að Monta Ellis þurfti að fara meiddur af velli í leiknum. Stephen Curry fór mikinn og var með 34 stig fyrir Golden State en Ellis hafði skorað 28 áður en hann fór út af meiddur í baki í fjórða leikhluta.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×