Enski boltinn

Benitez: Stefnum á að vinna þessa keppni

Ómar Þorgeirsson skrifar
Rafa Benitez.
Rafa Benitez. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Rafa Benitez hjá Liverpool er bjartsýnn fyrir seinni leik liðsins gegn Unirea Urziceni í 32-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA á Unirea Valahorum-leikvanginum í Rúmeníu í kvöld.

Liverpool lenti í talsverðu basli í fyrri leik liðanna á Anfield-leikvanginum og vann aðeins 1-0 sigur en Benitez segir afar mikilvægt að Liverpool hafi náð að halda marki sínu hreinu á heimavelli.

„Okkur gekk ekki nægilega vel að klára færin í fyrri leiknum en þá er gríðarlega mikilvægt að fá ekki á sig mark á móti. Við vitum að þeir eru öflugir á heimavelli sínum en eru þó ekki að skora mikið af mörkum og við getum því sett þá í erfiða stöðu með að skora útivallarmark.

Þá þurfa þeir að færa sig framar á völlinn og þá getum við skapað okkur meira pláss á þeirra vallarhelmingi til að skora mörk," sagði Benitez sem ítrekar að lið sitt ætli að fara alla leið í keppninni.

„Eftir að hafa spilað í Meistaradeildinni í fimm síðustu ár þá gerum við okkur grein fyrir því að þessi keppni er ekki á sama stalli en Evrópudeildin er þó mjög mikilvæg keppni og þar eru saman komin mörg góð lið.

Við vitum að þetta verður erfitt og við þurfum bara að taka einn leik í einu en við stefnum að sjálfsögðu á að vinna þessa keppni. Þetta er gott tækifæri til þess að skila bikar í safnið," sagði Benitez í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×