Gagnrýni

Fiðrildi leikur á mandólín

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Sýrópsmáninn eftir Eirík Guðmundsson.
Sýrópsmáninn eftir Eirík Guðmundsson.
Bækur / ****

Sýrópsmáninn

Eiríkur Guðmundsson

Bjartur

Það er ekki algengt að mann langi til að hrópa „loksins loksins“ við lestur nýrra íslenskra bóka en það gerðist þó við lestur fyrstu bókar Eiríks Guðmundssonar, 39 þrep á leið til glötunar, árið 2004. Þar kvað við svo ferskan tón að ekki varð um villst að nýr „alvöru“höfundur var kominn fram á sjónarsviðið. Skáldsagan Undir himninum árið 2006 náði ekki alveg að heilla mann upp úr skónum, þótt góð væri, en viðhélt þó fullvissunni um að hér væri á ferð einn ritfærasti höfundur síðustu ára. Sýrópsmáninn staðfestir það rækilega. Textinn er eins og hunang sem maður festist í og smjattar á og veit að maður á eftir að sækja í aftur og aftur.

Fyrri hluti bókarinnar minnir á 39 þrepin, fullur af ógleymanlegum myndum, óvæntum vísunum og glænýrri sýn á raunveruleikann. Hver myndin annarri betri er dregin upp og lesandinn ýmist skellihlær eða kyngir kekkinum í hálsinum. Myndirnar af afanum með rússnesku loðhúfuna og skott Volgunnar stútfullt af ljóðum rússneskra skálda, verkstæði grímugerðarmannsins, rauðum skó í vegarkanti, heimsókn þeirra félaga sögumanns og vinarins Alfreðs í risaspiladósina við höfnina og þeirri súrrealísku hugmynd að ræna Kristjáni Karlssyni skáldi, loka hann inni og láta hann yrkja ljóð eða þýða Faulkner við undirleik ærandi rokktónlistar vefjast hver um aðra og sveifla lesandanum milli væmni og ofsakæti. En undir krauma stríðari öfl, ástin og dauðinn og vegalengdirnar milli manneskjanna í jarðlífsþokunni. Leiðarstef bókarinnar er setningin: Lífið kremur mann, sem gengur aftur, aftur og aftur í textanum og boðar það sem verða skal, jafnvel í gráglettnustu köflunum.

Ísland er umlukið þoku, hlutir, fólk og mannvirki hverfa og Ítalía reynist litlu skárri með ógnandi skóginn, myrkur hans og leyndardóma sem skilja sögumanninn, konu hans og son frá umheiminum á sama hátt og þokan gerði heima. Hið eina sanna föðurland eru bókmenntirnar, eins og gjarnan áður hjá Eiríki. Mandelstam og Nabokov og Majakovskí og jafnvel Byron eru höfundar tilverunnar, haldreipi, leiðarstjörnur.

Í tveimur síðustu hlutum bókarinnar fjarar eilítið undan sögunni, hún missir heljartökin sem hún hafði á lesandanum og endurtekningarnar, sem í upphafi voru eins og hjartsláttur í gegnum textann, fara að missa marks, verða höktandi og áhrifalausar. Textinn heldur þó áfram að vera listilega saman settur, enda aðalsmerki Eiríks þau ógnartök sem hann hefur á tungumálinu.

Þetta er ekki bók sem nauðsynlegt er að lesa frá fyrstu til öftustu síðu í beit. Meira eins og ljóðabók sem liggur á stofuborðinu og maður grípur í aftur og aftur, les nokkrar línur hér og hvar og fagnar því að máttur orðanna skuli enn vera þess megnugur að lyfta manni yfir gráma hversdagsins.

Niðurstaða: Listilega samansettur texti og myndir sem sveima lengi í huga lesandans. Bók sem gripið verður til aftur og aftur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×