Körfubolti

Larry Brown hættur sem þjálfari Charlotte Bobcats

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Larry Brown.
Larry Brown. Mynd/AP

Michael Jordan, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Charlotte Bobcats, tilkynnti það í kvöld að Larry Brown væri hættur að þjálfa NBA-liðið en lítið hefur gengið hjá Bobcats-liðinu á þessu tímabili.

„Ég hitti Brown þjálfara fyrir tveimur vikum og við ræddum þá gengi liðsins og hvað við gætum gert til þess að bæta það. Við hittumst síðan aftur eftir æfingu í morgun. Liðið hefur verið langt frá því að uppfylla væntingar okkar beggja og við sættumst á það að það væri nauðsynlegt að breyta til," sagði Michael Jordan í bréfi til stuðningsmanna á heimasíðu Charlotte Bobcats.

„Þetta var erfið ákvörðun fyrir okkur báða en við komust ekki hjá því að taka hana. Ég vil þakka Larry fyrir allt sem hann hefur gert fyrir okkar lið. Hann hefur spilað lykilhlutverk í uppbyggingu félagsins og kom okkur meðal annars í fyrsta sinn inn í úrslitakeppnina á síðasta tímabili. Larry mun halda áfram sem ráðgjafi minn í málum tengdum liðinu. Ég mun strax hefja leit að eftirmanni hans," sagði Jordan ennfremur.

Larry Brown tók við Charlotte Bobcats liðinu 29. apríl 2008 og liðið vann 88 af 192 leikjum undir hans stjórn sem gerir 45,8 prósent sigurhlutfall. Þetta var níunda NBA-liðið sem hann þjálfari en Brown varð sjötugur í september síðastliðnum.

Charlotte Bobcats hefur aðeins unnið 9 af 28 leikjum sínum á tímabilinu og var búið að tapa síðustu fjórum leikjum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×