Leggðu á djúpið Páll Baldvin Baldvinsson skrifar 16. mars 2010 06:00 Í vikunni er þess minnst að Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur starfað í sex áratugi. Vonir brugðust um að hljómsveitin fagnaði afmæli sínu í nýju tónlistarhúsi. Því verða afmælistónleikar hljómsveitarinnar á fimmtudag í dauðum sal Háskólabíós, sal sem hefur reynst hljómsveitinni erfiður allar götur frá því húsið var reist fyrir fjármuni Sáttmálasjóðs 1961. Fyrir þann tíma var hljómsveitinni gert að leika í Austurbæjarbíói og Þjóðleikhúsinu. Gestir og áhangendur Sinfóníunnar hafa mátt gera sér að góðu að heyra samhljóm hennar í tónleikasölum af öllu tagi til þessa, nema þeir hafi átt því láni að fagna að heyra hana í öllu sínu veldi í bestu tónleikahúsum annarra landa þar sem hún hefur spilað, þar sem hún hefur náð þeim hæðum sem henni eru færar, og uppskorið það lof sem hún á skilið á góðum degi. Þeir sem njóta sinfónískrar tónlistar að staðaldri vita að efnisskrár stórra hljómsveita geta hljómað misvel. Hin klassíska mennt tónlistar á Íslandi á ekki að baki nema rétta öld. Við upphaf þess tíma áttu tónlistarmenn einungis völ á störfum á öldurhúsum. Salon-tónlist var í besta falli lifibrauð þeirra sem gengið höfðu hinn stranga veg þjálfunar frá blautu barnsbeini þar til ráðist var í að gera sinfóníska sveit úr Hljómsveit Reykjavíkur. Lengi vel var sveitin mönnuð af íslenskum tónlistarmönnum í hlutastarfi og erlendum farandleikurum sem sumir hverjir festu hér rætur. Af samstilltu átaki áhugamanna um tónlistarmenntun og stórri sveit tónlistarmanna hófst sú bylgja sem hefur fleytt okkur hingað: um allt íslenskt samfélag er sístarfandi menntuð og metnaðarfull sveit tónlistarmanna. Æ fleiri búa við langvinna menntun í hljóðfæraleik, kórastarf er í blóma og virk þekking á tónlist og tónlæsi færist í vöxt enn um sinn. Kórónan á því iðandi sköpunarverki er Sinfónían - besta bandið í bænum - eins og elstu menn af poppkynslóðinni kalla hljómsveitina þegar úrdrátturinn verður mönnum tiltækur af virðingu og kosið er að halda sig frá hástemmdu lofi. Því meðal tónlistariðkenda nýtur Sinfónían óskoraðrar virðingar. En þjóðin - hlustar hún á Sinfóníuna? Víst hlustar hún áköf á sinfóníska tónlist, oftast án þess að gera sér grein fyrir því, í kvikmyndum og í sjónvarpi, hljóðvarpi og af diskum og plötum. Sinfónísk tónlist umlykur okkur í hinum alltumlykjandi tónheimi sem íbúar Vesturlanda hrærast í. Líka við. Tónleikaflóran á Íslandi er afar fjölskrúðug, sinfónískir tónleikar eru aðeins brot af henni. Á tónleika Sinfóníunnar koma aftur á móti aðeins nokkur hundruð gestir að staðaldri. Forstöðumenn hljómsveitarinnar gera sér vonir um að úr aðsókn rætist þegar Harpan verður komin í fulla nýtingu vor og haust 2011. Gestafjöldi muni þá taka kipp. Þar ræður ekki síst fullvissan um að hið nýja hús skili frábærum hljómburði. Víst er að vistaskiptin, flutningurinn frá vikurmelunum milli Hólavalla og Grímsstaðaholts niður að rótum Arnarhóls, verða hamskipti fyrir hljómsveitina, einstakt sóknarfæri. Kærkomin og langþráð tímamót í mörgum skilningi. Þó við stöldrum nú við afmæli, þá er ekki hreinni ósk tifandi í hugum okkar en að Sinfóníuhljómsveit Íslands haldi áfram að dafna og þroskast og hver fundur hennar við íslenska áheyrendur verði hátíð héðan í frá sem hingað til. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Páll Baldvin Baldvinsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Í vikunni er þess minnst að Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur starfað í sex áratugi. Vonir brugðust um að hljómsveitin fagnaði afmæli sínu í nýju tónlistarhúsi. Því verða afmælistónleikar hljómsveitarinnar á fimmtudag í dauðum sal Háskólabíós, sal sem hefur reynst hljómsveitinni erfiður allar götur frá því húsið var reist fyrir fjármuni Sáttmálasjóðs 1961. Fyrir þann tíma var hljómsveitinni gert að leika í Austurbæjarbíói og Þjóðleikhúsinu. Gestir og áhangendur Sinfóníunnar hafa mátt gera sér að góðu að heyra samhljóm hennar í tónleikasölum af öllu tagi til þessa, nema þeir hafi átt því láni að fagna að heyra hana í öllu sínu veldi í bestu tónleikahúsum annarra landa þar sem hún hefur spilað, þar sem hún hefur náð þeim hæðum sem henni eru færar, og uppskorið það lof sem hún á skilið á góðum degi. Þeir sem njóta sinfónískrar tónlistar að staðaldri vita að efnisskrár stórra hljómsveita geta hljómað misvel. Hin klassíska mennt tónlistar á Íslandi á ekki að baki nema rétta öld. Við upphaf þess tíma áttu tónlistarmenn einungis völ á störfum á öldurhúsum. Salon-tónlist var í besta falli lifibrauð þeirra sem gengið höfðu hinn stranga veg þjálfunar frá blautu barnsbeini þar til ráðist var í að gera sinfóníska sveit úr Hljómsveit Reykjavíkur. Lengi vel var sveitin mönnuð af íslenskum tónlistarmönnum í hlutastarfi og erlendum farandleikurum sem sumir hverjir festu hér rætur. Af samstilltu átaki áhugamanna um tónlistarmenntun og stórri sveit tónlistarmanna hófst sú bylgja sem hefur fleytt okkur hingað: um allt íslenskt samfélag er sístarfandi menntuð og metnaðarfull sveit tónlistarmanna. Æ fleiri búa við langvinna menntun í hljóðfæraleik, kórastarf er í blóma og virk þekking á tónlist og tónlæsi færist í vöxt enn um sinn. Kórónan á því iðandi sköpunarverki er Sinfónían - besta bandið í bænum - eins og elstu menn af poppkynslóðinni kalla hljómsveitina þegar úrdrátturinn verður mönnum tiltækur af virðingu og kosið er að halda sig frá hástemmdu lofi. Því meðal tónlistariðkenda nýtur Sinfónían óskoraðrar virðingar. En þjóðin - hlustar hún á Sinfóníuna? Víst hlustar hún áköf á sinfóníska tónlist, oftast án þess að gera sér grein fyrir því, í kvikmyndum og í sjónvarpi, hljóðvarpi og af diskum og plötum. Sinfónísk tónlist umlykur okkur í hinum alltumlykjandi tónheimi sem íbúar Vesturlanda hrærast í. Líka við. Tónleikaflóran á Íslandi er afar fjölskrúðug, sinfónískir tónleikar eru aðeins brot af henni. Á tónleika Sinfóníunnar koma aftur á móti aðeins nokkur hundruð gestir að staðaldri. Forstöðumenn hljómsveitarinnar gera sér vonir um að úr aðsókn rætist þegar Harpan verður komin í fulla nýtingu vor og haust 2011. Gestafjöldi muni þá taka kipp. Þar ræður ekki síst fullvissan um að hið nýja hús skili frábærum hljómburði. Víst er að vistaskiptin, flutningurinn frá vikurmelunum milli Hólavalla og Grímsstaðaholts niður að rótum Arnarhóls, verða hamskipti fyrir hljómsveitina, einstakt sóknarfæri. Kærkomin og langþráð tímamót í mörgum skilningi. Þó við stöldrum nú við afmæli, þá er ekki hreinni ósk tifandi í hugum okkar en að Sinfóníuhljómsveit Íslands haldi áfram að dafna og þroskast og hver fundur hennar við íslenska áheyrendur verði hátíð héðan í frá sem hingað til.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun