Gagnrýni

Hver þolir dagsljósið?

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir leikur stórt hlutverk í Glerlaufunum sem sýnd eru á Norðurpólnum á Seltjarnarnesi.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir leikur stórt hlutverk í Glerlaufunum sem sýnd eru á Norðurpólnum á Seltjarnarnesi.

Leiklist ****

Glerlaufin eftir Philip Ridley

Leikarar: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Jóel Sæmundsson, Ólafur S.K. Þorvaldz, Vigdís Másdóttir

Framleiðendur og sviðsmynd: Alheimurinn ehf. og Börn Loka

Búningar: Thelma Björk Jónsdóttir

Ljós: Arnar Ingvarsson

Tónlist: Védís Hervör Árnadóttir

Aðstoðarleikstjóri: Þóra Karítas Árnadóttir

Leikstjóri: Bjartmar Þórðarson

Frumsýning á Norðurpólnum á laugardagskvöldið. Maður hlýtur að eiga að segja á Norðurpólnum og ekki í Norðurpólnum þó svo að sýningin sé vitaskuld inni í þessu bráðskemmtilega leikhúsi eða öllu heldur fjöllistahúsi sem áður hýsti plastframleiðslu úti á Seltjarnarnesi.

Leikhópur undir leikstjórn Bjartmars Þórðarsonar kynnir okkur fyrir fjölskylduharmleik þar sem meðvirkni og lygi ræður ríkjum.

Glerlaufin er stutt og þétt leikrit um tvo bræður sem eru ólíkari en allt en þó samtvinnaðir af uppeldi sínu og sameiginlegum hremmingum í bernsku. Barry er drykkfeldur myndlistarmaður en Steven er hinn ábyggilegi fyrirtækisforstjóri með glerborð og plaststóla á fullkomnu heimili með fallega eiginkonu. Móðir þeirra skoppar á milli þeirra eins og badmintonkúla allt eftir því hvernig slegið er hverju sinni.

Höfundur verksins, Philip Ridley, nam málaralist í St.Martin School of Art og hefur sýnt verk sín um gjörvalla Evrópu og í Japan. Hann hóf feril sinn sem gjörningalistamaður.

Þetta er eilífðarspurning um hver er saklaus og hver er sekur, hver stendur sig vel og hver stendur sig illa og hvað er að vera góð manneskja: Barry á við áfengisvanda að stríða og bróðir hans gerir allt sem í hans valdi stendur til þess að halda honum á beinu brautinni og móðirin viðheldur hlutverkaskipan sem haldist hefur óbreytt frá bernsku þá er faðir þeirra framdi sjálfsmorð sem hún hefur líklega aldrei alveg meðtekið eða viljað horfast í augu við.

Þetta er vel skrifað og vel þýtt drama (hver þýðir?) þar sem hvert hlutverk er skýrt og afmarkað og þó svo að sagan sé kunnugleg og margsögð er hún engu að síður spennandi, á stundum skondin, þó harmleikurinn sé undirliggjandi. Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir leikur miðaldra móður drengjanna sem hún af sjúklegri meðvirkni sinni vaggar inn í hverja vitleysuna á fætur annarri. Lilju Guðrúnu tekst undravel að koma hinni hræddu en vammlausu konu til skila. Það er mergjaður kraftur í hverri hreyfingu og henni tekst svo skemmtilega að sýna lygina með öllum þeim yfirbreiðslum sem einkennir fársjúka eiginkonu alkóhólista sem mun aldrei horfast í augu við sannleikann. Hún leikur á alla sína skondnu strengi og áhorfendur njóta hverrar kexköku sem hún deilir út til að trufla og eyða því tali sem upp kemur.

Bræðurnir eru ólíkir og hlutverk þeirra mjög skýrt afmörkuð þegar í bernsku. Barry sem staðið hafði föður sínum nær vinnur aldrei úr þeim harmi sem föðurmissirinn olli honum né þeirri niðurlægingu sem hann varð fyrir hjá ókunna manninum. Sem sagt ansi hreint kunnuglegt þema um orsakir ruglaðs lífs. Ólafur S.K. Þorvaldz fer með hlutverk Barrys og tekst vel að koma hinum öra en skilningsríka dreng til skila. Hann er sá sem hefur sannleikann í hendi sér og vill koma honum upp á yfirborðið en hin eru bara stolt af því að hann skuli vera edrú og með spurninguna á vörunum alla daga um hvort hann sé nú nokkuð farinn að drekka, eða hæla honum fyrir að vera svona edrú.

Steven er öllu flóknari persóna í leiknum og fer Jóel Sæmundsson með það hlutverk og hann á ekki í nokkrum vandræðum með að koma hinum undirliggjandi sársauka og reiði til skila. Vigdís Másdóttir leikur eiginkonuna sem er í senn puntudúkka og leitandi að hamingju sem hún heldur sig finna í fínni innréttingu. Vonandi vakna stúlkur af þeim draumi einhvern tíma en Vigdís, sem íðilfögur gerir manni sínum allt til geðs, sýnir hér að hún býr yfir styrk og skopskyni auk þess sem hún, þrátt fyrir að vera svo bæld hér, hefur mikla útgeislun. Glerlaufin eru gjafir keyptar fyrir fé fengið með sársauka.

Elísabet Brekkan

Niðurstaða: Klassísk lítil vel sögð saga í leikmynd sem hentaði innihaldinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×