Körfubolti

Blake Griffin með tvö af tíu flottustu tilþrifum næturinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blake Griffin kann að troða boltanum í körfuna.
Blake Griffin kann að troða boltanum í körfuna. Mynd/AP
Blake Griffin, nýliði Los Angeles Clippers, hefur verið fastagestur í samantektum NBA-deildarinnar í körfubolta yfir flottustu tilþrifin á þessu tímabili. Tvær svakalegar troðslur Griffin í nótt komust inn á topp tíu listann og þar að auki fagnaði hann og félagar hans í Clippers góðum sigri.

Griffin átti að sjálfsögðu tilþrif næturinnar þegar hann tróð viðstöðulaust yfir Marcin Gortat, miðherja Phoenix Suns en það má sjá tíu flottustu tilþrifin úr NBA-deildinni í nótt með því að smella hér.

Blake Griffin náði þarna sinni átjándu tvennu í röð með því að skora 28 stig og taka 12 fráköst en hann hjálpaði með því Los Angeles Clippers að vinna 108-103 sigur á Phoenix Suns.

Griffin hefur farið á kostum í desember þar sem hann er með 22,4 stig, 13,5 fráköst og 4,1 stoðsendingu að meðaltali í leik. Hann hefur verið með tvennu í öllum leikjum sínum frá því að hann náði aðeins að skora 12 stig og taka 8 fráköst í tapi fyrir Indiana Pacers 18. nóvember síðastliðinn.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×