Innlent

Ákvörðun um ákærur tekin fyrir vikulok

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Atli Gíslason er formaður þingnefndar sem fjallar um niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis.
Atli Gíslason er formaður þingnefndar sem fjallar um niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis.
Stefnt er að því að um næstu helgi liggi fyrir afstaða þingmannanefndar til þess hvort þeim ráðherrum, sem rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið taldi að gerst hefðu sekir um vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins 2008, verði stefnt fyrir landsdómi.

Atli Gíslason, formaður þingmannanefndar sem fjallar um skýrsluna, segist ekki gera sér grein fyrir hvort að skýrslu frá nefndinni verði skilað á föstudag eða laugardag. Ljóst er að haustþingi mun ljúka þann 15. september næstkomandi og Atli segir mikilvægt að þingið hafi nokkra daga til að fara yfir niðurstöður nefndarinnar fyrir þinghlé. „Við leggjum bara fram heildarniðurstöðu okkar fyrir eða um næstu helgi. Þar felst afstaðan til skýrslu rannsóknarnefndarinnar og hugsanlega ráðherraábyrgð," segir Atli. Hann segir þó að tíminn fram að næstu helgi sé knappur en stefnt sé kappsamlega að því að klára málið á þessum tíma.

Rannsóknarnefnd Alþingis taldi að þeir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra hefðu allir gerst sekir um vanrækslu í aðdraganda að bankahruninu. Landsdómur var stofnaður árið 1905. Verði fyrrverandi ráðherrunum stefnt fyrir dómnum er það í fyrsta sinn í sögu hans sem það gerist.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×