Innlent

Frekari hagræðing náist ekki

Capacent.
Capacent.

Minni bjartsýni ríkir á meðal forstöðumanna ríkisstofnana í ár heldur en í fyrra og telur helmingur ólíklegt að frekari hagræðing náist í rekstri stofnana á næsta ári. Kemur þetta fram í niðurstöðum könnunar Capacent á viðhorfum og viðbrögðum forstöðumanna við niðurskurði í rekstri.

Um 70 prósent telja að gæði þeirrar þjónustu sem stofnun þeirra veiti verði svipuð og í fyrra, en rúm 17 prósent telja að þjónustan verði verri á komandi ári. Almennt er lítil trú á útvistun verkefna hjá stofnununum og mikil andstaða virðist við sameiningu ríkisstofnana, en um 80 prósent svarenda töldu annaðhvort litla eða enga hagræðingu hljótast af slíku.

Einungis helmingur svarenda telur líklegt að stofnun sín muni geta sinnt lögbundnum verkefnum vel miðað við núverandi fjárveitingar, en 20 prósent telja að slíkum verkefnum verði sinnt illa. Tæpur helmingur svarenda telur einnig ólíklegt að mögulegt sé að skera meira niður heldur en nú þegar hefur verið gert. Stofnanir virðast þó að nokkru leyti ná árangri við niðurskurð án þess að hann bitni verulega á hlutverki þeirra en mikil óánægja virðist ríkja með fjárlagaferlið.

189 forstöðumenn ríkisstofnana voru í úrtaki og var könnunin framkvæmd frá 1. til 12. september. Svarhlutfall var 72, 6 prósent.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×