Sport

Pacquiao búinn að finna sér nýjan andstæðing

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manny Pacquiao.
Manny Pacquiao. Nordic Photos / AFP
Hnefaleikakappinn Manny Pacquiao hefur fundið sér annan andstæðing til að berjast við í stað Floyd Mayweather í mars næstkomandi.

Til stóð að þeir Pacquiao og Mayweather myndu mætast í mars en samningaviðræður aðila runnu út í sandinn þegar að Pacquiao neitaði að ganga að kröfu Mayweather um lyfjaprófanir.

Sáttasemjari var fenginn til að miðla málum en það tókst ekki. Þó er ekki útilokað að þeir félagar mætist síðar en margir voru búnir að bíða spenntir eftir bardaga þeirra enda taldir tveir af allra bestu hnefaleikaköppum heimsins í dag.

„Það er alltaf hægt að gera þetta síðar í ár eða á næsta ári," sagði einn fulltrúa Pacquiao. „En það er undir Mayweather komið. Ef hann ætlar að byrja aftur á þessu bulli um lyfjaprófanir eða eitthvað annað fær það þá að fara sína leið."

„Við höfum okkar leiðir til að framkvæma lyfjaeftirlit í okkar íþrótt. Ef hann vill fara sínar eigin sérstöku leiðir í þessum málum ætti hann að koma þeim á framfæri við yfirvöld."

Manny Pacquiao mun mæta Joshua Clottey frá Gana en hann varð heimsmeistari í veltivigt hjá IBF-sambandinu í ágúst árið 2008.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×