Innlent

Árni Páll: Skýrslan ekki nægur grunnur fyrir ákærur

Mynd: GVA
Árni Páll Árnason, viðskipta- og efnahagsráðherra, segir Rannsóknarskýrslu Alþingis ekki nægjanlega sterka heimild til að reisa á ákærur. Hann lofar skýrsluna sem slíka en segir að í henni sé atburðum jafnvel lýst út frá vitnisburði fárra hagsmunaaðila í stað þess að þar sé birt niðurstaða óháðrar rannsóknar.

„Þetta er vandamál," segir Árni Páll. „Það vantar traustari atburðalýsingu sem grunn fyrir ákæru."

Hann er ósammála því að sitjandi þingmenn og ráðherrar séu að veigra sér við því að axla ábyrgð með því að efast um réttmæti þess að ákæra fyrrverandi ráðherrana fjóra. Hann telur ennfremur að ekki megi blanda saman pólitískri ábyrgð og ákæru fyrir saknæman verknað þegar rætt er um störf ráðherranna fyrrverandi.

Árna Páli finnst ekki sanngjarnt að ákærur verði gefnar út ef ekki hefur verið lagt óháð mat á hversu miklar líkur eru á sekt eða sýknu.

„Við eigum ekki að ákæra ef ekki eru meiri likur á sekt en sýknu," segir hann. „Við verðum síðan hvert og eitt að meta út frá þessu likur á sekt eða sýknu," segir Árni Páll og það sé fyrst í framhaldi af því sem þingmenn geta tekið ákvörðun um hvernig þeir greiða atkvæði. „Ábyrgð okkar er mikil," segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×