Körfubolti

LeBron lét baulið ekki trufla sig og fór á kostum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
LeBron var einbeittur er hann mætti til leiks. AP
LeBron var einbeittur er hann mætti til leiks. AP

Það var allt á suðupunkti í Cleveland í nótt þegar LeBron James snéri aftur til Cleveland í búningi Miami Heat. Áhorfendur létu öllum illum látum í garð leikmannsins en hann svaraði fyrir sig með stórleik á vellinum og gekk í burtu sem sigurvegari.

James skoraði 38 stig í leiknum og Miami valtaði yfir Cleveland, 118-90. Það var gríðarleg pressa á James í þessum leik óg ótrúlegt að fylgjast með látunum i áhorfendum. Hann sýndi úr hverju hann er gerður með þessum stórleik.

"Ég ber mikla virðingu fyrir þessum áhorfendum og hef alltaf gert. Ákvörðun mín að fara var ekki persónuleg. Ég þekki þennan völl og hef hitt úr mörgum skotum hérna. Ég vildi láta til mín taka," sagði James.

Það fór misvel í áhorfendur þegar James reyndi að gantast við fyrrum félaga sína í Cleveland í upphafi leiks. Leikmönnum Cleveland leið greinilega ekki vel með það því þeir reyndu að vera kurteisir en að sama skapi vildu þeir ekki tala of mikið við hann.

Í kjölfarið virtist einn aðstoðarþjálfara Cleveland segja James að steinhalda kjafti.

"Þetta var bara skemmtilegt fyrir mig. Það var skemmtilegt að fá að spila gegn mínum gömlu félögum og þess vegna gantaðist ég við þá," sagði James.

Þó svo hitinn í mönnum í Höllinni hefði verið mikil fór hasarinn ekki úr böndunum. Aðeins einn var handtekinn og fjórum var hent út úr húsi.

Öryggisgæslan á leiknum var gríðarleg og lukkudýr Cleveland var í skotheldu vesti af öryggisástæðum. Af hverju einhver ætti að vilja skjóta það liggur ekki fyrir

James ítrekaði eftir leikinn að hann sæi ekki eftir því að hafa farið frá Cleveland.

"Ég vil ekki biðja neinn afsökunar. Ég ætlaði mér aldrei að særa neinn. Ég tók mína ákvörðun og verð að lifa með henni."

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×