Körfubolti

LeBron spilar með Miami Heat

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
LeBron er hér með Jim Gray í sjónvarpsþættinum í gær.
LeBron er hér með Jim Gray í sjónvarpsþættinum í gær.

Körfuboltaheimurinn stóð á öndinni í nótt þegar LeBron James tilkynnti með hvaða liði hann ætlar að leika á næstu árum. Hann gerði það með stæl og dugði ekkert minna en sérstakur klukkutíma sjónvarpsþáttur á ESPN undir herlegheitin. Þátturinn hét "The Decision" eða Ákvörðunin.

Valmöguleikarnir voru nokkrir. Hann gat haldið áfram að spila með Cleveland þar sem hann hefur verið í sjö ár. Chicago og Carlos Boozer biðu einnig með opin faðminn og svo var það Miami. Þar beið sól og tvær stórstjörnur. Einnig var þar auðveldasta leiðin til þess að næla sér í meistarahring.

LeBron ákvað að fara til Miami og mun mynda þar sögulegt ofurtríó með Dwayne Wade og Chris Bosh. Er óhætt að segja að Miami sé nú þegar orðið sigurstranglegast á næstu leiktíð.

"Ég get ekki sagt að þetta hafi alltaf verið í kortunum því mér datt aldrei í hug að þetta gæti gengið upp," sagði James sem tók sér margar vikur í að ákveða sig.

"Miami Heat hefur lagt mikið á sig til þess að búa til pláss undir launaþakinu og komst um leið í stöðu til þess að hafa okkur þrjá á sama stað. Það var erfitt að hafna þessu. Þarna bíða tveir af bestu leikmönnum deildarinnar eftir mér. Þarna er besta tækifærið til þess að verða meistari. Við verðum með frábært lið."

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×