Innlent

Vaxtaákvarðanir Seðabankans fyrir hrun byggðar á óskhyggju

Höskuldur Kári Schram skrifar

Hagstjórnin síðustu fjögur árin fyrir hrun átti mikinn þátt í því að ýkja efnhagslegt ójafnvægi sem síðar leiddi til bankahrunsins. Svo virðist sem vaxtaákvarðanir Seðlabankans hafi á tímabili byggst á óskhyggju um framvindu efnhagsmála frekar en staðreyndum.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að lítið samræmi hafi verið milli aðgerða ríkisstjórnarinnar annars vegar og Seðlabankans hins vegar í efnhagsmálum.

Á meðan ríkisstjórnin beitti sér fyrir þensluhvetjandi aðgerðum á borð við stóriðjuframkvæmdum og skattalækkunum reyndi Seðlabankinn að draga úr þenslunni með því að hækka vexti.

Rannsóknarnefndin telur að aðgerðir Seðlabankans hafi verið ómarkvissar og frekar stafað af óskhyggju um að ríkisvaldið myndi taka þátt í því að draga úr þenslu. Það gerðist hins vegar ekki.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að þessi togstreita milli Seðlabankans og ríkisvaldsins hafi átt þátt í því að ýkja hið efnhagslega ójafnvægi sem síðar leiddi til hrunsins. Undir þetta tekur viðskiptaráðherra.

„Það var eitt af því sem að gróf undan stöðugleika og gerði sveiflurnar dýpri sem eru einn af mörgum þáttum sem valda hruninu en ég held að það sé samt ekki meginskýringin á hruninu hennar er augljóslega að leita innan bankanna," sagði Gylfi Magnússon.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×