Körfubolti

Barcelona vann Los Angeles Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Gasol í leiknum á móti Barcelona.
Pau Gasol í leiknum á móti Barcelona. Mynd/AP
Barcelona vann 92-88 sigur á NBA-meisturum Los Angeles Lakers í æfingaleik í gær en leikið var á Spáni. Pau Gasol, framherji lakers, mætti þarna sínu gamla félagi.

Juan Carlos Navarro skoraði 25 stig fyrir Barcelona í leiknum en spænska liðið var tólf stigum undir í seinni hálfleik en tókst að jafna og tryggja sér sigur.

Pau Gasol skoraði 24 stig fyrir Lakers. „Þú vilt alltaf vinna en þetta var tilfinningaríkur leikur. Áhorfendurnir nutu leiksins og andrúmsloftið var einstakt. Við töpuðum en þegar vinir manns vinna þá getur þú ekki annað en gleðst með þeim," sagði Pau Gasol.

Kobe Bryant skoraði 15 stig fyrir Lakers á þeim 25 mínútum sem hann spilaði en hitti aðeins úr 2 af 15 skotum sínum utan af velli.

„Kobe er ekki tilbúinn að spila. Hann tók þátt í leiknum af góðvilja við áhorfendur og til þess að styðja sitt lið," sagði Phil Jackson, þjálfari lakers en Kobe er enn að ná sér eftir aðgerð á hné í sumar.

Lakersliðið tapaði því báðum leikjum sínum í Evrópuferðinni því liðið lá einnig á móti Minnesota Timberwolves í London.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×