Erlent

Danir hlógu alla leið í bankann

Óli Tynes skrifar
Múhahaha
Múhahaha

Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS hefur reiknað út að loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn hafi kostað bandaríska skattgreiðendur vel yfir einn milljarð dollara. Það er meira en 126 milljarðar íslenskra króna.

Þessi upphæð er ferðakostnaður þingmanna og annarra opinberra starfsmanna sem sóttu ráðstefnuna fyrir hönd Bandaríkjanna. Inni í þessu er ekki kostnaður við heimsókn Baracks Obama sem náttúrlega kom til Kaupmannahafnar með einkaþotu embættisins Air Force One.

Þingmennirnir og spúsur þeirra bjuggu náttúrlega á fimm stjörnu hótelum og ferðuðust á fyrsta farrými í flugvélum til og frá Kaupmannahöfn.

Ein skýringin á himinháum hótelteikningum var raunar sú að Danir notuðu heldur betur tækifærið til þess að maka krókinn.

Á Marriott hótelinu þurftu gestir til dæmis að greiða fyrir lágmark sex gistinætur, þótt þeir væru þar aðeins í tvær nætur.

Einn þingmannanna sagði að hann hefði mótmælt þessu harðlega, en Dönum hefði ekki verið kvikað.

CBS spyr hversu vel mönnum gangi að semja um flókin loftslagsmál ef þeir geti ekki einusinni samið um hótelherbergi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×