Erlent

Ekkert sparað í Afganistan

Cameron ræðir við hermenn David Cameron, forsætisráðherra Breta, kynnti niðurskurðinn í gær. nordicphotos/AFP
Cameron ræðir við hermenn David Cameron, forsætisráðherra Breta, kynnti niðurskurðinn í gær. nordicphotos/AFP

Breska stjórnin hefur ákveðið að grípa til sparnaðaraðgerða í hernaðarmálum, og er það liður í margboðuðum niðurskurði í ríkisfjármálum sem stjórnin telur sig nauðbeygða til að ráðast í.

David Cameron forsætisráðherra tók þó fram að ekkert verði dregið úr þátttöku Breta í hernaðinum í Afganistan. Heildarframlög ríkisins til hermála verði auk þess áfram meira en tvö prósent af þjóðarframleiðslu, eins og Atlantshafsbandalagið gerir kröfu um. Breski herinn verði áfram sá fjórði stærsti í heimi.

Alls verður hermönnum fækkað um sautján þúsund og starfsmönnum varnarmálaráðuneytisins um 25 þúsund. Þá verður öldnu flugmóðurskipi lagt og heill floti herþotna tekinn úr notkun og smíði fjögurra nýrra kafbáta verður frestað til 2016.

Niðurskurðurinn nemur átta prósentum af heildarútgjöldum til hermála á fjárlögum næstu fjögurra ára.

Cameron skýrði Barack Obama Bandaríkjaforseta frá þessu símleiðis áður en hann kynnti bresku þjóðinni áformin.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×