Innlent

Finnst mikil hætta skapast

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson

„Mér finnst mikil hætta skapast með því að hefja rannsóknir á einstaklingum án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir og færa okkur óþægilega nálægt aðferðum lögregluríkja svokallaðra."

Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, um þá áætlun Rögnu Árnadóttur, dómsmála- og mannréttindamálaráðherra, að fela réttarfarsnefnd að undirbúa tillögur að forvirkum rannsóknarheimildum til handa lögreglunni.

Ögmundur segir hugmyndir af þessu tagi hafa komið fram áður. Þá hafi hann, ásamt fleirum, sett fram miklar efasemdir. Hann geri það ekki síður nú.

„Ráðherra kveðst hafa gögn undir höndum sem breytt hafi afstöðu hennar," segir hann.

„Það er nokkuð sem ég vildi fá nánari upplýsingar um. En mín skoðun er sú, að rökstuddur grunur eigi að leiða til rannsóknar lögreglu á einstaklingum."

Ekki náðist í Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og þingmann Samfylkingarinnar, í gær til að fá álit hans á málinu.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×