Körfubolti

NBA: Fyrsti sigur Miami og Cleveland vann Boston

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade skoraði 30 stig í leiknum í nótt.
Dwyane Wade skoraði 30 stig í leiknum í nótt. Mynd/AP
Dwyane Wade, LeBron James og Chris Bosh unnu sinn fyrsta leik saman með Miami Heat í NBA-deildinni í nótt en Boston sem vann Miami-liðið í opnunarleiknum í fyrrinótt tapaði hinsvegar óvænt fyrir gamla liðinu hans LeBrons James, Cleveland Cavaliers.

Dwyane Wade var með 30 stig í 97-87 útisigri Miami Heat á Philadelphia 76ers en LeBron James var með 16 stig og Chris Bosh skoraði 15 stig. James tapaði 9 boltum í leiknum og er því með 8,5 tapaða bolta að meðaltali í fyrstu tveimur leikjum sínum með Miami. Nýliðinn Evan Turner skoraði 16 stig fyrir Philadelphia.

Cleveland Cavaliers vann 95-87 sigur á Boston Celtics í fyrsta leik sínum án LeBron James. J.J. Hickson skoraði 21 stig og Daniel Gibson var með 16 stig. Rajon Rondo skoraði 18 stig og 9 stoðsendingar fyrir Boston sem var meðal annars ellefu stigum yfir í þriðja leikhlutanum.

Brook Lopez skoraði 25 stig þegar New Jersey Nets vann 101-98 sigur á Detroit Pistons í fyrsta leiknum síðan að Rússinn Mikhail Prokhorov eignaðist félagið. Devin Harris var með 22 stig og 9 stoðsendingar hjá Nets.

Dirk Nowitzki var með 28 stig og 13 fráköst í 101-86 sigri Dallas Mavericks á Charlotte Bobcats en Jason Kidd bætti við 12 stigum og 18 stoðsendingum og Jason Terry skoraði 22 stig.

Landsliðsmennirnir Kevin Durant og Russell Westbrook voru í stuði og skoruðu saman 58 stig í 106-95 sigri Oklahoma City á Chicago Bulls, Durant skoraði 30 stig og Westbrook var með 28 stig og 10 fráköst. Derrick Rose skoraði 28 stig í fyrsta leik Chicago undir stjórn Tom Thibodeau, fyrrum aðstoðarþjálfara Boston.

Tim Duncan var með 23 stig og 12 fráköst þegar San Antonio Spurs vann 122-109 sigur á Indiana Pacers. Manu Ginobili skoraði 22 stig og Tpony Parker var með 20 stig og 9 stoðsendingar en hjá Indiana var Roy Hibbert með 28 stig og Danny Granger skoraði 26 stig.

Chris Paul var með 17 stig og 16 stoðsendingar þegar New Orleans Hornets vann 95-91 sigur á Milwaukee Bucks.

Carmelo Anthony skoraði 23 stig og Arron Afflalo var með 22 stig þegar Denver Nuggets vann 110-88 sigur á Utah Jazz. George Karl, þjálfari Denver, snéri aftur á bekkinn hjá Denver eftir langvinn veikindi.

Monta Ellis skoraði 46 stig og Stephen Curry var með 25 stig og 11 stoðsendingar þegar Golden State Warriors vann 131-128 sigur á Houston Rockets í miklum stigaleik. Luis Scola var með 35 stig og 16 fráköst fyrir Houston sem lék án Yao Ming.

Blake Griffin var með 20 stig og 14 fráköst í sínum fyrsta leik með Los Angeles Clippers en það kom ekki í veg fyrir að liðið tapaði 88-98 á móit Portland Trail Blazers. Brandon Roy var með 22 stig fyrir Portland.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

Cleveland Cavaliers-Boston Celtics 95-87

New Jersey Nets-Detroit Pistons 101-98

Philadelphia 76Ers-Miami Heat 87-97

Toronto Raptors-New York Knicks 93-98

Memphis Grizzlies-Atlanta Hawks 104-119

Minnesota Timberwolves-Sacramento Kings 116-117

New Orleans Hornets-Milwaukee Bucks 95-91

Oklahoma City Thunder-Chicago Bulls 106-95

Dallas Mavericks-Charlotte Bobcats 101-86

San Antonio Spurs-Indiana Pacers 122-109

Denver Nuggets-Utah Jazz 110-88

Golden State Warriors-Houston Rockets 132-128

Los Angeles Clippers-Portland Trail Blazers 88-98



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×