Erlent

Stuðningur Baracks Obama fælir frá

Arlen Scpecter ásamt eiginkonu sinni Náði ekki kjöri þrátt fyrir eindreginn stuðning forsetans.fréttablaðið/AP
Arlen Scpecter ásamt eiginkonu sinni Náði ekki kjöri þrátt fyrir eindreginn stuðning forsetans.fréttablaðið/AP

Úrslit nokkurra forkosninga bandarísku stjórnmálaflokkanna benda til þess að mikil uppstokkun sé í vændum í þingkosningunum þar vestra næsta haust.

Forkosningar voru í fjórum ríkjum Bandaríkjanna á þriðjudag, en helstu tíðindin þar voru forkosningar demókrata í Pennsylvaníu, þar sem Arlen Spector náði ekki kjöri, en hann var talinn eiga nokkuð öruggt þingsæti í öldungadeildinni eftir þrjátíu ára setu þar.

Stuðningur Baracks Obama forseta við Specter hafði þar engin áhrif á kjósendur, sem þykir benda til þess að staða forsetans meðal almennings sé orðin nokkuð veik. Í Kentucky tapaði annar þungavigtarmaður í pólitíkinni, repúblikaninn Trey Greyson, fyrir nýliðanum Rand Paul sem hefur verið fyrirferðarmikill í teboðshreyfingu Söruh Palin, fyrrverandi varaforsetaframbjóðanda flokksins.

Fréttaskýrendur hafa túlkað úrslitin þannig að nýliðar í flokkunum eigi almennt meiri möguleika í ár en þeir sem hafa verið áhrifamenn innan flokkanna til lengri tíma.

Forkosningar halda áfram næstu vikurnar en þingkosningarnar verða haldnar 2. nóvember.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×