Gagnrýni

Brotakennd sýning ungra listamanna

Níu er samsýning níu listamanna í Gerðarsafni.
Níu er samsýning níu listamanna í Gerðarsafni.

Myndlist: **

Níu, samsýning níu listamanna í Gerðarsafni

Gerðarsafn

Sýningarstjóri: Birta Guðjónsdóttir

Listamennirnir níu sem nú sýna í Gerðarsafni eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast úr listnámi á síðustu árum, hér á landi og erlendis. Nokkur þeirra eru með MFA-gráðu eða eru í slíku námi. Algengur námsferill myndlistarmanna í dag er listnámsbraut í menntaskóla, síðan þriggja ára nám við Listaháskólann og loks tveggja ára MFA-nám erlendis, það er misjafnt hvert fólk fer þá helst. Listnám er síðan að því leyti frábrugðið öðru háskólanámi að sían er mjög þröng, aðeins brot af þeim sem sækja um kemst að í náminu.

Þessir listamenn sem hér sýna, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bjarki Bragason, Etienne de France, Gunndís Ýr Finnbogadóttir, Helga Björg Gylfadóttir, Logi Bjarnason, Páll Haukur Björnsson, Steinunn Gunnlaugsdóttir og Styrmir Guðmundsson, eiga það sameiginlegt að hafa verið í listnámi eða við upphaf ferils síns á miklum umbrotatímum í samfélaginu, þau hafa fylgst á virkan hátt með því hugmyndafræðilega hruni sem átti sér stað og er enn í gangi dag hvern. Verk þeirra fjalla svo til öll um samfélag í krísu.

Efnistökin endurspegla fjölbreytileika samtímalistarinnar en fjölbreytnin er ekki til þess að styrkja sýninguna í heild. Það er synd, því framtakið er flott og listamennirnir hver um sig hafa mikið fram að færa. Þau eru hins vegar hugsanlega of ólík, og sum kannski of stutt komin á ferlinum, til þess að ná að skapa sýningu sem fangar áhorfandann, hvort sem það væri hugmyndalega, sjónrænt eða tilfinningalega.

Verkin vinna illa saman og ná ekki að miðla hugmyndum þeirra, þær koma betur fram í vel unninni sýningarskrá. Eitthvað virkar ekki, kannski er það uppröðun verka í salina, eða samsetningin á listamönnum sem vinna í of ólík efni, þau eru kannski ekki að sýna sín sterkustu verk, eða dýnamíkin komst ekki í gang. Að minnsta kosti er erfitt að ná sambandi við sýninguna og heildin skilur minna eftir sig en hvert einstakt listaverk.

Verkin eru líka nokkuð tvískipt, þar sem annars vegar ríkir hugmyndafræði sem minnir á uppruna hugmyndalistar í list Joseph Kosuth og ljær sýningunni blæ liðins tíma en hins vegar list sem sækir meira til expressionisma og hrárra efnisaðferða sem virkja skynjun áhorfandans.

Að öðrum ólöstuðum stendur verk Helgu Bjargar Gylfadóttur upp úr á sýningunni, það er grípandi og virkjar rýmið á óvæntan hátt, skapar mynd, segir sögu og í því má einnig finna kjarna sýningarinnar, hlutskipti íslensku þjóðarinnar sem velkist um í björgunarbát á opnu hafi.

Niðurstaða: Einstök listaverk eru áhugaverð, framtakið er lofsvert en niðurstaðan er brotakennd heild sem erfitt er að ná sambandi við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×