Erlent

Milljón manns þurfa aðstoð

Snúa aftur heim Hópur Úsbeka fer aftur yfir landamærin frá Úsbekistan til Kirgisistans, eftir að hafa flúið þangað undan óeirðunum. nordicphotos/AFP
Snúa aftur heim Hópur Úsbeka fer aftur yfir landamærin frá Úsbekistan til Kirgisistans, eftir að hafa flúið þangað undan óeirðunum. nordicphotos/AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur að milljón manns geti þurft á aðstoð að halda vegna óeirðanna í Kirgisistan. Um þriðjungur þeirra verði líklega flóttamenn frá landinu.

Rosa Otunbajeva, bráðabirgðaforseti landsins, segist óttast að átökin hafi kostað um tvö þúsund manns lífið, þótt opinbert mat á mannfalli hafi í gær verið að rúmlega tvö hundruð manns hafi látist.

Reglulegt flug á vegum Sameinuðu þjóðanna með hjálpargögn til landsins hefst nú um helgina. Þeir sem flosnað hafa upp frá heimilum sínum vegna átakanna þurfa helst á matvælum, vatni, lyfjum og húsaskjóli að halda.

Otunbajeva flaug í gærmorgun með þyrlu til Osh, 250 þúsund manna borgar þar sem átökin hófust í síðustu viku. Að hluta til hefur borgin verið lögð í rúst. Þar voru að verki ungir Kirgisar, sem brenndu niður hús Úsbeka og réðust á fyrirtæki í eigu Úsbeka.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×