Innlent

Hækkaði í verði á meðan aðrir lækkuðu

Í bretlandi Á meðan verð á matvörukeðjunni Tesco og sambærilegum félögum lækkaði, hækkaði Landsbankinn bókfært verð Iceland Food Group.Nordicphotos/AFP
Í bretlandi Á meðan verð á matvörukeðjunni Tesco og sambærilegum félögum lækkaði, hækkaði Landsbankinn bókfært verð Iceland Food Group.Nordicphotos/AFP
Verð óskráðra félaga Landsbankans var hækkað í reikningum bankans á sama tíma og markaðsverð eigna á Vesturlöndum var almennt á niðurleið. Bent er á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þannig hafi málum verið háttað í lok árs 2007 og allt þar til bankinn féll.

„Munaði þá mest um uppfærslu á verði á óskráðu félagi á Bretlandseyjum, Iceland Food Group Ltd.,“ segir í skýrslunni. Bent er á að Landsbankinn hafi fært félagið inn á safn eigin viðskipta bankans í september 2007 að nafnvirði alls 109 þúsund hlutir. „Verð á félaginu samkvæmt uppgjöri bankans í desember var skráð á bókum á genginu 455,5 en í mars 2008 var það komið í 610,11, samkvæmt uppgjöri. Í júní var félagið skráð á bókum Landsbankans á genginu 735.“

Nefndin segir að þegar horft sé til þess að eignaverð hafi almennt farið lækkandi í heiminum á sama tíma veki hækkunin athygli og þar með áhrif til að auka hagnað bankans. „Þannig jókst virði Iceland Food Group um ríflega 60 prósent á bókum Landsbankans á meðan sambærileg félög í Bretlandi lækkuðu.

Til dæmis lækkaði hlutabréfaverð matvörukeðjunnar Tesco’s um 16 prósent, og Marks & Spencer’s lækkaði um 50 prósent frá desember 2007 til júní 2008,“ segir í skýrslunni og tiltekið að uppfærsla verðs á Iceland Food Group hafi staðið undir átta milljörðum af 29 milljarða króna hagnaði Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2008. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×