Erlent

Þrettán ára drengur hengdi sig fyrir slysni vegna netæðis

Harry Robinson lést aðeins þrettán ára gamall.
Harry Robinson lést aðeins þrettán ára gamall.

Hinn þrettán ára gamli Harry Robinson, hengdi sig fyrir slysni í janúar síðastliðnum. Rannsókn lögreglunnar í Essex í Bretlandi leiddi í ljós að Harry hafði ætlað að láta líða yfir sig. Það gerði hann með því að vefja handklæði, sem var fast í sturtuhengi, utan um hálsinn á sér. Svo virðist sem hann hafi misst fótana og kafnað.

Ellefu ára gamall bróðir Harrys kom að honum og tókst að skera hann niður. Það var þó of seint; Harry var þegar látinn.

Samkvæmt vefsíðu The Daily Mail þá hugðist Harry kæfa sig til þess að komast í vímu. Um er að ræða nokkurskonar netæði sem er kallað á ensku „the choking game".

Leikurinn gengur út á það að einstaklingur lætur líða yfir sig með því að hindra að súrefni berist til heilans. Uppátækið náði miklum vinsældum fyrir örfáum árum síðan þegar unglingar víðsvegar um heiminn fóru að taka uppátækið upp á myndband og setja inn á myndbandasíðuna Youtube. Þar má finna fjölda myndbanda af unglingum láta líða yfir sig.

Þá hefur mikið verið fjallað um æðið í bandarísku og breskum fjölmiðlum. Ekki síst vegna þess að Harry er ekki sá eini sem hefur látist eða skaðast í þessu hildarleik.

Ísland virðist ekki hafa sloppið við æðið en finna má umræður um málið á spjallþræðinum doktor.is. Þar spyr unglingur, sem segist hafa prófað að láta líða yfir sig, hvort uppátækið sé hættulegt.

Umræðuna um málið má finna í lok síðasta mánaðar. Svörin sem viðkomandi fær eru væntanlega ekki byggð á miklum upplýsingum. Þannig svarar banana1 spurningunni svona: „Þetta er ekkert neitt sérstaklega hættulegt, ekki jafn hættulegt og meth eða sígarettur en samt alveg pínu hættulegt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×