Gagnrýni

Leyndardómar fortíðar

Arndís Þórarinsdóttir skrifar
Forngripasafnið eftir Sigrúnu Eldjárn.
Forngripasafnið eftir Sigrúnu Eldjárn.
Bækur

Forngripasafnið

Sigrún Eldjárn

Forngripasafnið er ný skáldsaga eftir Sigrúnu Eldjárn og segir af Rúnari sem flytur ásamt föður sínum út á land og inn í byggðasafn sem faðir hans hefur tekið að sér. Á safninu reynist ekki allt með felldu og smám saman afhjúpa Rúnar og vinir hans þúsund ára gamlan leyndardóm.

Dampurinn í sögunni er dálítið ójafn og ráðgátan ekki í fyrirrúmi allan tímann. Sagan af því hvernig Rúnar reynir að koma sér fyrir í nýjum landshluta er brotin upp með hugleiðingum skúrksins í sögunni, en lengi vel eru þær svo ómarkvissar að þær kveikja ekki forvitni. Umræddur skúrkur er einnig dreginn afar óljósum dráttum sem veldur því að áhuginn á gátunni verður takmarkaðri en ella.

Lausnir sögunnar eru oft með allnokkrum ólíkindum. Stundum er þetta skemmtilegt, eins og þegar hópur sænskra fornleifafræðinga finnur upp sérstakt tæki sem getur kallað fram heilmyndir af fortíðinni, með nokkrum haganlega staðsettum geislum. Langsóttara er þó að fornleifafræðingarnir sænsku ákveða á síðustu stundu, þegar tækið er einmitt ný­tilbúið, að drífa sig til kollega síns á Íslandi og prufukeyra apparatið þar!

Þó er Forngripasafnið ein þeirra sagna þar sem nútímatækni er mikið til hundsuð. Það virkar þvingað og óeðlilegt í bók sem kemur út árið 2010 að piltur geti ekki náð í foreldra sína um lengri tíma vegna þess að annað þeirra „þrjóskist við" að fá sér GSM-síma og hitt sé utan þjónustusvæðis.

Rúnar er skemmtilegur strákur og félagar hans, tveir krakkar úr næsta húsi, líka. Sigrún hefur lengi skrifað skemmtilega samsetta barnahópa - hér er til dæmis ein þriggja söguhetja nokkrum árum yngri en hinar sem eykur á fjölbreytnina án þess að virðast þvingað. Feður barnanna eru líka vel skrifaðir. Þó má setja spurningarmerki við að leyfa sjónarhorninu að flakka frá Rúnari með þeim hætti sem hér er gert - lesendur sjá nokkrum sinnum í hugskot pabba Rúnars og fleiri persóna, án þess að það virðist framvindunni nauðsynlegt.

Textinn í bókinni er brotinn upp með teikningum Sigrúnar sem lífga mikið upp á hana. Þær eru ekki jafnlíflegar og maður á að venjast frá henni, eins og til dæmis í hinum stórskemmtilegu Árstíðum sem þau Þórarinn Eldjárn sendu frá sér í haust, en þær eiga heldur ekkert að vera það - hér er textinn í aðalhlutverki.

Sigrúnu ferst raunar líka vel að lýsa með orðum - óreiðan á forngripasafninu stendur lesendum auðveldlega fyrir hugskotssjónum og maður þarf ekki að hafa ferðast víða um landsbyggðina til að brosa í kampinn þegar vinkona Rúnars leiðir hann um þorpið og segir „þetta skrýtna geimskip þarna er kirkjan" (bls. 44).

Það er margt vel gert í þessari bók og hún er greinilega skrifuð af fagmanni - en fléttan er veikasti hlekkurinn í skáldskapar­keðju þar sem sögusvið, persónur og lýsingar eru öll með ágætum.

Niðurstaða: Haganlega skrifuð saga sem líður fyrir heldur þunglamalega fléttu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×