Tónlist
Jukk
Prinspóló
Jukk er önnur plata Prinspóló, en sú fyrri Einn heima EP sem kom út í fyrra vakti athygli fyrir skemmtilega texta og flutning. Á fyrri plötunni sá Svavar Pétur Eysteinsson um allan söng og hljóðfæraleik, en á nýju plötunni er Prinspóló orðin fjögurra manna hljómsveit. Það góða er samt að þó að tónlistin hafi þróast nokkuð er „heima í herbergi"-hljómurinn enn þá til staðar á Jukkinu.
Styrkur Prinspóló er sem fyrr snilldartextar, skemmtilegur flutningur og ómótstæðilegur „lo-fi" hljómur, en veikleikinn eru lagasmíðarnar sem eru sumar frekar þunnar.
Bestu lögin á Jukkinu eru Prinspóló, Hakk og spaghetti, Njótum afans, Niðrá strönd og Mjaðmir. Allt fyrirtaks jukk sem léttir lund í skammdeginu. Jukk.
Niðurstaða: Prinspóló gleður með góðu jukki.
