Körfubolti

NBA: Boston vann Miami í fyrsta leik LeBron með Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Bosh, Dwyane Wade (3) og LeBron James (6).
Chris Bosh, Dwyane Wade (3) og LeBron James (6). Mynd/AP
Nýja ofurþríeykið í Miami Heat byrjaði ekki vel í nótt þegar liðið tapaði 88-80 fyrir Boston Celtics í opnunarleik NBA-deildarinnar í körfubolta. LeBron James lék þarna sinn fyrsta alvöru leik með Miami-liðinu eftir að hann yfirgaf Cleveland.

LeBron James var með 31 stig í leiknum en fékk litla hjálp frá hinum tveimur úr ofurþríeykinu, Dwyane Wade og Chris Bosh. Wade var með 13 stig, klikkaði á 12 af 16 skotum sínum og tapaði 6 boltum en Bosh var með 8 stig og 8 fráköst.

Ray Allen skoraði 20 stig fyrir Boston, Paul Pierce var með 19 stig og Kevin Garnett bætti við 10 stigum og 10 fráköstum. Boston-liðið gaf tóninn strax í byrjun, vann fyrsta leikhluta 16-9 og var 45-30 yfir í hálfleik.

Rajon Rondo átti þátt í öllum sjö körfum Boston í fyrsta leikhlutanum og endaði leikinn með 17 stoðsendingar og 4 stig.

Kobe Bryant var með 27 stig og 7 stoðsendingar þegar meistararnir í Los Angeles Lakers unnu 112-110 sigur á Houston Rockets en mikilvægustu körfuna í lokin skoraði nýi maður liðsins, Steve Blake.

Pau Gasol var með 29 stig og 11 fráköst og Lamar Odom var mðe 14 stig og 10 fráköst en hjá Houston var Kevin Martin með 26 stig og Aaron Brooks skoraði 24 stig og gaf 9 stoðsendingar. Yao Ming lék í 23 mínútur og 21 sekúndur, skoraði 9 stig og tók 11 fráköst.

Nicolas Batum skoraði 19 stig þegar Portland Trail Blazers vann 106-92 heimasigur á Phoenix Suns en Brandon Roy var stigahæstur með 24 stig. Steve Nash var með 26 stig hjá Phoenix.



Úrslit næturinnar í NBA-deildinni í körfubolta:


Boston Celtics-Miami Heat 88-80

Portland Trail Blazers-Phoenix Suns 106-92

Los Angeles Lakers-Houston Rockets 112-110

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×