Körfubolti

Michael Jordan sýndi gamla takta á æfingu hjá Charlotte

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Michael Jordan sem á árum áður var besti körfuboltamaður heims mætti óvænt á æfingu NBA liðsins Charlotte Bobcats í gær.
Michael Jordan sem á árum áður var besti körfuboltamaður heims mætti óvænt á æfingu NBA liðsins Charlotte Bobcats í gær. Nordic Photos/Getty Images

Michael Jordan sem á árum áður var besti körfuboltamaður heims mætti óvænt á æfingu NBA liðsins Charlotte Bobcats í gær. Jordan þarf víst ekki að spyrja um leyfi fyrir slíkt því hann er eigandi félagsins. Hinn 48 ára gamli Jordan hefur tekið virkan þátt í séræfingum leikmanna á undanförnum vikum og í gær fór eigandinn með þetta alla leið og spilaði á æfingunni.

Jordan varð sex sinnum meistari með Chicago Bulls á ferlinum og leikmenn Charlotte þurftu að hafa fyrir hlutunum gegn gamla meistaranum. „Þetta er Mike. Hann er enn með þetta og við fengum að kenna á því," sagði Gerald Wallace leikmaður Charlotte eftir æfinguna. „Hann er ekki með hraðann en hann kann að skjóta og skora - líkt og áður," bætti framherjinn við.

Paul Silas þjálfari Charlotte er ánægður með að eigandi liðsins skuli taka virkan þátt. „Hann er ávallt tilbúinn að kenna leikmönnum liðsins það sem hann gerði best. Leikmenn liðsins leggja meira á sig þegar hann mætir á æfingar," sagði Silas sem tók við þjálfun liðsins í vetur eftir að Larry Brown var sagt upp störfum.

Charlotte hefur unnið 22 leiki en tapað 30 í vetur en liðið komst í úrslitakeppnina s.l. vor í fyrsta sinn í stuttri sögu liðsins. Liðið er enn með í baráttunni um áttunda sætið í Austurdeildinni en Indiana er sem stendur í því sæti en Charlotte er þar næst í röðinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×