Körfubolti

NBA: Miami missti niður 24 stiga forskot í tapi gegn Orlando

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Orlando Magic vann 99-96 útisigur á Miami Heat í nágrannaslag Flórídaliðanna í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Þetta er í annað skiptið á tímabilinu sem Miami er með 22 stiga eða meiri forystu en tapar því niður og jafnframt enn einn stórleikurinn sem liðið tapar.

Miami var 73-49 yfir í þriðja leikhluta en Orlando-liðið fór þá á 40-9 sprett á fimmtán mínútum og komst yfir í 89-82.

„Þetta kallar á útskýringu," sagði Stan Van Gundy, þjálfari Orlando og bætti við:

„Það er ótrúlegt að ná að gera þetta á útivelli og þetta var stórkostlegur sigur," sagði Van Gundy.







Mynd/AP
LeBron James og Dwyane Wade skoruðu saman 47 stig í fyrri hálfleik (hittu úr 18 af 21 skoti) og voru þá búnir að skora tveimur stigum meira en allt Orlando-liðið til samans.

James endaði með 29 stig og Wade skoraði 28 stig. Þeir klikkuðu á öllum sex skotum sínum í fjórða leikhluta og hittu aðeins úr 3 af 13 skotum í seinni hálfleik.

Jason Richardson var með 24 stig fyrir Orlando, Jameer Nelson skoraði 12 af 16 stigum sínum í seinni hálfleik og Dwight Howard var með 14 stig og 18 fráköst en Howard vann allt Miami-liðið í fráköstum í fjórða leikhlutanum (10-9).

Mynd/AP
Það var einn annar leikur í NBA-deildinni í nótt en Denver Nuggets vann þá 103-101 útisigur á Utah Jazz. Denver er þar með búið að vinna fimm af sex leikjum síðan liðið skipti Carmelo Anthony og Chauncey Billups til New York en Utah hefur hinsvegar tapað sex af sjö leikjum síðan að Ty Corbin tók við af Jerry Sloan.

Ty Lawson skoraði 22 stig fyrir Denver og Aaron Afflalo skoraði 19 stig en hjá Utah var C.J. Miles með 22 stig og Devin Harris bætti við 21 stigi og 9 stoðsendingum. Utah-liðið hefur nú tapað sjö heimaleikjum í röð sem er lengsta taphrina liðsins í Salt Lake City síðan 1982.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×