Körfubolti

Dwight Howard og LaMarcus Aldridge valdir bestir í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard.
Dwight Howard. Mynd/AP
Dwight Howard, miðherji Orlando Magic, og LaMarcus Aldridge, kraftframherji Portland Trail Blazers, voru valdir bestu leikmenn febrúarmánaðar í NBA-deildinni í körfubolta, Howard í Austurdeildinni og Aldridge í Vesturdeildinni.

Dwight Howard var með 26,6 stig og 14,8 fráköst að meðaltali í leik í febrúar og hitti úr 66,7 prósent skota sinna. Orlando vann 7 af 11 leikjum sínum þar á meðal leik á móti Oklahoma City 25. febrúar þar sem Howard var með 40 stig, 15 fráköst og 6 varin skot. Þetta var einn af þremur 30-15 leikjum Howard í mánuðinum.

LaMarcus Aldridge var með 27,8 stig og 9,3 fráköst að meðaltali í leik í febrúar en hann hitti úr 56,3 prósent skota sinna. Portland vann 8 af 12 leikjum sínum í mánuðinum en Aldridge braut 30 stiga múrinn sex sinnum í þessum tólf leikjum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Aldridge er valin besti leikmaður mánaðarins á þessu tímabili en Howard var einnig valinn bestur í nóvember.

Aðrir sem komu til greina að þessu sinni voru þeir: Carmelo Anthony (Denver/New York),  Elton Brand (Philadelphia), Kevin Durant (Oklahoma City), LeBron James og Dwyane Wade (Miami), Kevin Martin (Houston) og Steve Nash (Phoenix).



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×