Bakþankar

Sjónarhornið úr sollinum

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Undanfarinn áratug eða svo hefur póstnúmerið alræmda hundrað og einn verið minn heimavöllur. Síðastliðinn þrjú ár hef ég meira að segja búið í sjálfu hjarta sollsins: Hverfisgötu. Samkvæmt vinsælli forskrift ætti ég því væntanlega að vera ullardúðuð listaspíra á styrkjum (lesist bótum), sem sökum lattéþambs og hugvísindamenntunar hefur bjagað skynbragð á nýtingu náttúruauðlinda og efnahagsstjórn. Að viðbættri nálægðinni við Hverfisgötu má að auki teljast líklegt að ég stundi vændi til að fjármagna fíkn mína í morfínlyf.

Senn losna ég hins vegar undan 101-stimplinum því bráðum flyt ég alla leið í hundrað og fjóra; í heimkynni „venjulega fólksins". Ég játa að eftir áralanga innrætingu á tvískiptingu heimsins í „101 og hinir" kvíði ég því að fikra mig út fyrir mærin og kveðja heim myndlistaropnana, frumsýninga og útgáfuhófa. Hvernig skyldi veröldin annars vera fyrir utan 101?

Er skylda að að eiga jeppling ef maður býr ekki í 101 Reykjavík? Verður maður að vera í flíspeysu frá Cintamani þegar maður fer í bæinn á menningarnótt? Má ég ekki lengur láta sjá mig í lopapeysunni sem mamma prjónaði á mig í fyrra?

Þegar réttlætiskennd minni er misboðið, fæ ég þá útrás MEÐ ÞVÍ AÐ SKRIFA ILLA STAFSTETA FACEBOOK-FRÆSLU Í HÁSTÖFUM MEÐFULLT AF UPPHRÓPUNARMERKJUM?!!!! Verður hugmynd mín um pólitískt andóf að kommenta á Eyjuna? Þarf ég að læka allar greinar á Pressunni? Verða bensínverð og myntkörfulán einu málin sem geta fengið mig til að mæta á mótmæli? Verður orðið „landráðamaður" mér tamt?

Breytist skynjun manns á lífið þegar maður býr fyrir utan 101? Verður Útsvar skemmtilegt? Verð ég sólginn í My Secret-engiferdrykkinn? Meikar Tobba Marinós sens? Á ég bara eftir að lesa reyfara? Er bannað að fara út að skokka nema í spandexgalla. Verð ég að vera í þjóðkirkjunni þótt ég sé trúlaus? Læt ég setninguna „alltaf laus bílastæði" ráða hvar ég eyði helgunum? Byrja ég að kalla son minn „lasarus" þegar hann veikist? Verð ég að lýsa öllu sem ég hef velþóknun á með orðinu „snilld"?

Það er engum blöðum um það að fletta að lífið fyrir utan 101 Reykjavík verður allt öðruvísi en ég á að venjast. En það þarf ekki endilega að vera svo slæmt. Svo framarlega sem ég er jákvæður og reyni að nálgast þessa plebba sem búa þarna með opnum huga og fordómalaust.










×