Viðskipti innlent

Ríkið greiðir ekki fyrir kynningu á Icesave

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ríkissjóður greiðir ekki fyrir kynningar á Icesave-samningunum hjá stofnunum og fyrirtækjum. Sumir nefndarmenn í Icesave-nefndinni halda slíkar kynningar frítt en aðrir rukka fyrirtækin sem biðja um kynningarnar.

Í síðustu viku stóð Arion banki fyrir tveimur kynningarfundum á nýju Icesave-samningunum, en nokkru áður hafði Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður sem situr í Icesave-nefndinni, haldið kynningu fyrir starfsfólk bankans um sama efni. Jóhannes Karl hélt erindi fyrir starfsfólkið og á opnu fundunum tveimur og gerði það án greiðslu.

Á opnu fundunum hélt líka breski fjármálasérfræðingurinn Andrew Speirs hjá ráðgjafarfyrirtækinu Hawkpoint fyrirlestur en Arion banki lét hjá líða að geta þess í kynningarefni vegna fundarins að Speirs þessi vann fyrir samninganefndina. Fréttastofa sendi Speirs fyrirspurn vegna kostnaðarins, þ.e hvort hann hafi fengið greitt fyrir að halda fyrirlesturinn, en hann svaraði ekki.

Að undanförnu hafa ýmis fyrirtæki óskað eftir kynningarfundum á Icesave-samningunum fyrir starfsfólk sitt. Ríkissjóður greiðir ekki fyrir erindi nefndarmanna úr samninganefndinni á þessum fundum og eftir því sem fréttastofa kemst næst hafa stjórnvöld ekki skipt sér af því hvort nefndarmenn í samninganefndinni þekkist slík boð. Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmaður í samninganefndinni, hefur haldið erindi á tveimur slíkum fundum en hann sagði í samtali við fréttastofu að fyrirtæki sem óskuðu eftir kynningu greiddu fyrir fyrirlestrana sjálf enda væru slíkar kynningar ekki gerðar fyrir ríkið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×