Körfubolti

Nokkrir NBA-leikmenn á tæknivillu-brúninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard treður með tilfþrifum í leik með Orlando Magic.
Dwight Howard treður með tilfþrifum í leik með Orlando Magic. Mynd/AP
Dwight Howard, miðherji Orlando Magic, er tæknivillu-kóngur NBA-deildarinnar í körfubolta það sem af er og sá eini sem hefur farið í bann vegna of margra tæknivilla á þessu tímabili. Howard hefur fengið 16 tæknivillur en menn fá leikbann fyrir sextándu tækivilluna og svo eins leiks bann fyrir hverjar tvær tæknivillur sem bætast við.

Howard hefur ekki áhyggjur af því að fá fleiri tæknivillur því hann segir félaga sína ætla að hjálpa honum að róa sig niður þegar hann er ósáttur við harðar móttökur mótherjanna eða að hans mati ósanngjarna dóma.

„Sumir brjóta á mér og halda síðan áfram að brjóta þegar dómarinn er búinn að dæma. Ég verð pirraður þegar dómararnir taka ekki á þessu en liðsfélagarnir ætla að reyna að stand sig betur í að róa mig niður," sagði Howard.

Howard er ekki sá eini sem þarf að passa sig því Amare Stoudemire hjá New York er með fimmtán tæknivillur og má ekki fá eina í viðbót því þá fer hann í bann. Stephen Jackson hjá Charlotte vantar tvær í viðbót til þess að fá leikbann.

Amare er einn af þremur tæknivillu-tröllum í New York liðinu því Carmelo Anthony hefur fengið þrettán tæknivillur og Chauncey Billups hefur fengið tíu tæknivillur. Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers hefur fengið tólf tæknivillur og Kevin Garnett hjá Boston er búinn að fá 11 tæknivillur á tímabilinu. það eru því nokkrir NBA-leikmenn sem verða passa sig á lokaspretti NBA-deildarinnar.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×