Körfubolti

NBA: Ellefta 50 sigra tímabil Dallas Mavericks í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki og Jason Terry.
Dirk Nowitzki og Jason Terry. Mynd/AP
Það var rólegt í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar það fóru aðeins fram tveir leikir. Dallas vann Minnesota Timberwolves og varð því fimmta liðið til þess að vinna 50 leiki í vetur og New Orleans Hornets hafði betur gegn Utah Jazz eftir framlengingu.

Dirk Nowitzki var með 30 stig og 11 fráköst og Jason Terry bætti við 18 stigum þegar Dallas Mavericks vann 104-96 sigur á Minnesota Timberwolves. Dallas Mavericks hefur því unnið 50 leiki á tímabilinu sem liðið er að ná elleftu leiktíðina í röð.

Shawn Marion skoraði 17 stig fyrir Dallas og Peja Stojakovic var með 16 stig en þetta var þriðji sigur liðsins í síðustu fjórum leikjum. Anthony Randolph var með 31 stig og 11 fráköst fyrir Minnesota sem lék án Kevin Love sem er meiddur.

New Orleans Hornets vann 121-117 útisigur á Utah Jazz eftir framlengingu. Emeka Okafor tryggði New Orleans framlengingu með flautukörfu og varamaðurinn Aaron Gray fór á kostum í framlengingunni og skoraði þar sex stig.

David West skoraði 29 stig áður en hann datt illa á höfuðið og var keyrður út af vellinum í hjólastól. Chris Paul skoraði 5 af 24 stigum sínum í framlengingunni. Paul Millsap var stigahæstur hjá Utah með 33 stig en þetta vaer fjórða tap liðsins í röð.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×