Körfubolti

NBA í nótt: Enn einn sigurinn hjá Chicago

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Derrick Rose berst um boltann við Jerryd Bayless í leiknum í nótt.
Derrick Rose berst um boltann við Jerryd Bayless í leiknum í nótt. Mynd/AP
Chicago Bulls vann í nótt sinn fimmtánda sigur í síðustu sautján leikjum sínum í NBA-deildinni í körfubolta.

Chicago vann Toronto, 113-106, og er nú aðeins einum sigri á eftir San Antonio Spurs sem er með besta árangur allra liða í deildinni.

Derrick Rose var með 36 stig og tíu stoðsendingar í leiknum og er þetta í þriðja sinn í síðustu fimm leikjum Chicaco sem hann skorar minnst 30 stig í leik.

Þjálfari liðsins, Tom Thibodeau, stýrði Chicago til 56. sigur liðsins á tímabilinu sem er met hjá þjálfara sem er á sínu fyrsta ári með félagið. Gamla metið átti Phil Jackson, núverandi þjálfari Lakers.

Carlos Boozer var með átján stig og tíu fráköst, Luol Deng sautján stig og Taj Gibson fimmtán stig og níu fráköst.

Joakim Noah er þó enn frá vegna ökklameiðsla en þetta var þriðji leikurinn í röð sem hann missir af vegna meiðslanna.

Golden State vann Dallas, 99-92. Monta Ellis var með 32 stig og David Lee sextán fyrir Golden State.

Memphis vann Minnesota, 106-89. Zach Randolph skoraði 22 stig fyrir Memphis sem vann sinn fjórða leik í röð en liðið er í sjöunda sæti Austurdeildarinnar.

LA Clippers vann Oklahoma City, 98-92. Blake Griffin var með 26 stig og sextán fráköst fyrir Clippers.

Milwaukee vann Philadelphia, 93-87, í framlengdum leik. Brandon Jennings skoraði þrettán stig, þar af níu í framlengingunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×