Viðskipti innlent

Héraðsdómur styrkir forsendur Icesave-samninganna

Niðurstaða héraðsdóms um heildsöluinnlán styrkir forsendur Icesave-samninganna og dregur úr réttaróvissu um stöðu þeirra sem gera kröfu til að njóta forgangs við úthlutun úr búi bankans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samninganefnd Íslands í Icesave málinu en hún hefur verið birt á vefsíðu stjórnarráðsins.

"Samkvæmt úrskurðum sem gengu í héraðsdómi Reykjavíkur í dag var því slegið föstu að ákvæði neyðarlaganna um forgangsröð innstæðueigenda brjóti ekki gegn eignarréttarvernd eða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þessi niðurstaða varðar forsendu Icesave-samninganna og skiptir sköpum fyrir að bú bankans standi í raun sjálft undir stærstum hluta af  greiðslu skuldbindinga vegna Icesave reikninganna," segir í tilkynningunni.

"Jafnframt var þar staðfest að svokölluð heildsöluinnlán teljist innstæður í skilningi laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, og njóti þar með forgangs við slitameðferð Landsbanka Íslands. Þessi niðurstaða er í samræmi við afstöðu slitastjórnar Landsbankans og þar með þær forsendur sem samninganefnd Íslands hefur lagt sínum áætlunum til grundvallar.

Niðurstaða dómsins styrkir þannig forsendur Icesave-samninganna og dregur úr réttaróvissu um stöðu þeirra sem gera kröfu til að njóta forgangs við úthlutun úr búi bankans. Af því leiðir að slitastjórn getur að öllum líkindum hraðað úthlutun úr búi bankans frá því sem samninganefndin hefur gert ráð fyrir.

Við það dregur markvert úr kostnaði ríkisins af vaxtagreiðslum af höfuðstól endurgreiðslufjárhæðarinnar og er það mat samninganefndarinnar að áhrif flýtingar útgreiðslna lækki enn hreinan kostnað af samningunum.

Niðurstaða héraðsdóms Reykjavíkur gefur því sterkar vísbendingar um að þær meginforsendur sem samninganefndin hefur byggt mat sitt á samningunum á séu í senn traustar og varfærnislegar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×