Körfubolti

NBA: Chicago og San Antonio jöfn á toppnum fyrir síðasta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose.
Derrick Rose. Mynd/AP
Chicago Bulls komst upp að hlið San Antonio Spurs á toppi NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt eftir að Bulls-liðið vann New York Knicks og San Antonio tapaði fyrir Los Angeles Lakers. Verði liðin áfram jöfn eftir síðustu leikina í kvöld verður dregið um hvort liðið fær heimavallarrétt mætist þau í úrslitunum þar sem að innbyrðisárangur þeirra er jafn. Chicago tekur á móti New Jersey Nets í lokaleik sínum í nótt en San Antonio fer í heimsókn til Phoenix.

Derrick Rose skoraði 26 stig í 103-90 sigri Chicago Bulls á New York Knicks í Madison Square Garden. Chicago hóf seinni hálfleikinn á 26-2 spretti og vann fráköstin 51-33. Þetta var áttundi sigur liðsins í röð. Luol Deng var með 23 stig og 10 fráköst og Carlos Boozer bætti við 14 stigum og 22 fráköstum. Carmelo Anthony skoraði 21 stig fyrir New York sem var búið að vinna sjö leiki í röð fyrir þennan leik.

Kobe Bryant skoraði 27 stig þegar Los Angeles Lakers vann 102-93 sigur á San Antonio Spurs og endaði um leið fimm leikja taphrinu sína. Lakers-liðið varð samt fyrir áfalli í leiknum þegar miðherjinn Andrew Bynum meiddist á hné. Lamar Odom skoraði 23 stig fyrir Lakers en Gregg Popovich, þjálfari Spurs, hvíldi stjörnurnar Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker í þessum leik. Gary Neal var stigahæstur hjá San Antonio með 16 stig.

LaMarcus Aldridge var með 22 stig og 11 fráköst þegar Portland Trail Blazers tryggði sér sjötta sætið í Vestrinu með 102-89 heimasigri á Memphis Grizzlies. Mike Conley skoraði 17 stig fyrir Memphis sem lék án Zach Randolph og Tony Allen.





Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:
Andrew Bynum.Mynd/AP
New York Knicks-Chicago Bulls 90-103

Portland Trail Blazers-Memphis Grizzlies 102-89

Los Angeles Lakers-San Antonio Spurs 102-93

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×