Körfubolti

Billups verður áfram með New York á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chauncey Billups.
Chauncey Billups. Mynd/AP
New York Knicks ætlar að halda leikstjórnandanum Chauncey Billups á næsta tímabili og borga honum 14,2 milljónir dollara fyrir tímabilið 2012-2013 eða 1,6 milljarða íslenskra króna. Þetta tilkynnti Donnie Walsh, forseti félagsins í dag.

Billups kom til New York í vetur í skiptum félagsins við Denver Nuggets en hann fylgdi með í kaupunum þegar New York fékk til sín stórstjörnuna Carmelo Anthony. Billups gat þó lítið beitt sér í úrslitakeppninni vegna meiðsla en Boston sló New York út 4-0 í fyrstu umferð.

„Chauncey, Amare og Carmelo mynda góðan kjarna í liðinu og við ætlum að halda áfram að byggja liðið upp í kringum þá," sagði Donnie Walsh en hann átti möguleika á að kaupa Billups út úr samningi sínum fyrir 3,7 milljónir dollara.

Billups sem verður 35 ára gamall í september ætlar að létta sig á undirbúningstímabilinu og segist eiga nóg eftir í boltanum. „Skrokkurinn er fínn endar er ég 34 ára en ekki 39 ára," sagði Billups sem var með 17,5 stig og 5,5 stoðsendingar að meðaltali í 21 leik með New York í vetur.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×