Körfubolti

Blake Griffin fékk fullt hús í kjörinu á besta nýliðanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blake Griffin með verðlaunin sín.
Blake Griffin með verðlaunin sín. Mynd/AP
Allir 118 blaðamennirnir sem kusu besta nýliðann í NBA-deildinni í körfubolta settu Blake Griffin, leikmann Los Angeles Clippers, í fyrsta sætið. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1990 og aðeins í þriðja skiptið í sögunni sem besti nýliðinn fær fullt hús atkvæða.

Síðasti nýliðinn til að fá fullt hús var David Robinson hjá San Antonio Spurs árið 1990 en 1984 fékk Houston-maðurinn Ralph Sampson einnig öll atkvæðin í fyrsta sætið.

Griffin, sem er 208 sm og hoppar hærra en þeir flestir, átti frábært tímabil þar sem hann var með 22,5 stig, 12,1 fráköst og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann varð í tólft sæti í deildinni í stigaskori og í fjórða sæti í fráköstum.

Griffin var valinn í deildina sumarið 2009 en meiddist illa á hné í síðasta leik Clippers á undirbúningstímabilinu. Hann missti af öllu síðasta tímabili og taldist því vera nýliði í ár.

„Þegar ég meiddist þá tók ég þá ákvörðun að koma bara enn betri til baka. Ég varð að bæta mig þótt að ég gæti ekki spilað og gaf mig allan í endurhæfinguna. Það er því afar ánægjulegt að geta tekið við þessum verðlaunum núna," sagði Blake Griffin.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×