Körfubolti

NBA: Tom Thibodeau valinn þjálfari ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Thibodeau, þjálfari Chicago Bulls.
Tom Thibodeau, þjálfari Chicago Bulls. Mynd/AP
Tom Thibodeau, þjálfari Chicago Bulls, var í gær valinn besti þjálfari NBA-deildarinnar í körfubolta á þessu tímabili en undir hans stjórn náði Bulls-liðið besta árangri allra liða í deildarkeppninni.

Thibodeau var aðstoðarþjálfari Doc Rivers hjá Boston síðustu þrjú árin en fékk nú loksins tækifæri að vera aðalþjálfari eftir 20 ára starf sem aðstoðarþjálfari í NBA-deildinni. Chicago-liðið vann 62 leiki í deildarkeppninni sem er metjöfnun hjá þjálfara á fyrsta ári með lið.

Thibodeau fékk 475 stig og 76 atkvæði í fyrsta sætið í þessu kjöri. Doug Collins, þjálfari Philadelphia 76ers varði í 2. sæti og Gregg Popovich, þjálfari San Antonio Spurs lenti í þriðja sæti í kjörinu en að því standa fjölmiðlamenn sem fjalla um NBA-deildina.

Thibodeau er fjórði þjálfari Chicago sem fær þessi verðlaun en áður höfðu þeir Johnny Kerr (1967), Dick Motta (1971) og Phil Jackson (1996) fengið þennan mikla heiður.

Leikmenn Chicago Bulls tala mikið um dugnað og vinnusemi Thibodeau sem þeir segja að mæti fyrstur og fari síðastur. Hann lifir fyrir körfuboltann og nú er bara að sjá hversu langt hann kemst með Chicago Bulls í úrslitakeppninni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×