Körfubolti

Chicago í úrslit Austurdeildarinnar í fyrsta sinn í þrettán ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Boozer og Derrick Rose fagna í nótt.
Carlos Boozer og Derrick Rose fagna í nótt. Mynd/AP
Chicago Bulls er komið áfram í úrslit Austurdeildarinnar í úrslitakeppninni í NBA-deildinni í körfubolta eftir sigur á Atlanta Hawks í nótt, 93-73.

Chicago vann þar með rimmu liðanna í undanúrslitum, 4-2, og mætir Miami í úrslitunum. Sigurvegari þeirrar rimmu kemst svo í sjálf lokaúrslitin þar sem spilað verður um meistaratitilinn.

Sigurinn í nótt var öruggur en Chicago náði forystunni snemma í leiknum og lét hana aldrei af hendi. Staðan í hálfleik var 45-35 en munurinn jókst svo enn meira eftir því sem leið á seinni hálfleikinn.

Chicago spilaði frábæran varnarleik í nótt og hélt Atlanta í 37 prósent skotnýtingu. Derrick Rose hafði óvenju hægt um sig í sókninni en leyfði félögum sínum að blómstra þess í stað. Hann skoraði nítján stig en var með tólf stoðsendingar. Carlos Boozer skoraði 23 stig og tók tíu fráköst.

Hjá Atlanta var Joe Johnson stigahæstur með nítján stig en Josh Smith skoraði átján.

Chicago komst síðast svo langt í úrslitakeppninni er liðið varð meistari árið 1998 með þá Michael Jordan, Scottie Pippen og félaga innanborðs. Pippen var á leiknum í nótt og fylgdist stoltur með.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×