Körfubolti

NBA: Fær LeBron að dekka Dirk í úrslitunum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki.
Dirk Nowitzki. Mynd/AP
Það styttist nú óðum í að lokaúrslit NBA-deildarinnar hefjist þar sem að Miami Heat mætir Dallas Mavericks. Margir líta á þetta sem einvígi á milli hinna frábæru leikmanna LeBron James og Dirk Nowitzki sem eiga báðir eftir að kynnast því á farsælum ferli að verða NBA-meistari.

Fyrsti leikur Miami Heat og Dallas Mavericks fer fram á þriðjudagskvöldið en bæði liðin unnu 4-1 sigur á andstæðingum sínum í úrslitum deildanna og þar fóru þeir LeBron og Dirk á kostum.

NBA-spekingarnir hafa verið að velta því fyrir sér hvort að LeBron James fái tækifæri til að reyna að dekka Dirk Nowitzki í þessu einvígi en James fékk mikið lof fyrir að dekka leikstjórnandann Derrick Rose í einvíginu á móti Chicago Bulls sem er reyndar allt öðruvísi leikmaður.

„Fólk segir að ég sé góður varnarmaður og hann er besti sóknarmaðurinn hjá þeim. Það er því líklegt að ég fái að reyna mig á honum en annars geri ég bara það sem þarf til að við vinnum. Ef ég þarf að dekka hann allt einvígið þá mun ég gera það," sagði LeBron James.

Það má búast við því að Chris Bosh, Joel Anthony og Udonis Haslem verði líka notaðir á Dirk Nowitzki en Þjóðverjinn hefur verið nánast óstöðvandi í úrslitakeppninni með 28,4 stig í leik, 52 prósent skotnýtingu og 93 prósent vítanýtingu.

„Þeir eru með mjög gott lið með þrjár súper-stjörnur sem geta allir spilað vörn. Þeir hafa sýnt styrk varnarleiks síns til þessa í úrslitakeppninni og þetta verður mikil áskorun. Vonandi verðum við klárir fyrir hana," sagði Dirk Nowitzki aðspurður um varnarleik Miami.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×