Körfubolti

Lakers-menn ætla að hengja treyju Shaq upp í Staples Center

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O'Neal í leik með Lakers.
Shaquille O'Neal í leik með Lakers. Mynd/AFP
Shaquille O'Neal lagði óvænt skóna á hilluna í gær en hann setti tilkynninguna sína út í loftið á twitter-síðu sinni. O'Neal sem er orðinn 39 ára gamall reyndi fyrir sér hjá Boston Celtics á þessu tímabili en spilaði lítið vegna sífelldra meiðsla.

Shaquille O'Neal spilaði 19 tímabil í NBA-deildinni með sex félögum en stjarna hans skein skærtst þegar hann spilaði með Los Angeles Lakers á árunum 1996 til 2004. Þar vann hann þrjá titla og var auk þess valinn besti leikmaður deildarinnar tímabilið 1999 til 2000.

Forráðamenn Lakers hafa þegar gefið það út að þeir ætli að hengja treyju Shaquille O'Neal upp í Staples Center en Shaq yrði þá áttundi leikmaður félagsins sem væri heiðraður með þessum hætti. Hinir eru: Wilt Chamberlain (Númer 13), Elgin Baylor (22), Gail Goodrich (25), Earvin "Magic" Johnson (32), Kareem Abdul-Jabbar (33), James Worthy (42) og Jerry West (44).

O'Neal var með 27 stig, 11,8 fráköst, 3,1 stoðsendingu og 2,5 varin skot í 541 deildarleikjum sínum með Lakers en meðaltöl hans í þremur lokaúrslitum frá 2000 til 2002 (á móti Indiana, Philadelphia og New Jersey) voru 35,9 stig, 15,2 fráköst og 2,9 varin skot í leik en kappinn var þá alveg óstöðvandi.

Það má líka minna á það til gamans að íslenski miðherjinn Pétur Guðmundsson spilaði í treyju númer 34 þegar hann lék með Lakers-liðinu tímabilið 1985-86 en Pétur kom þá við sögu í 20 leikjum liðsins í deild og úrslitakeppni og var í byrjunarliðinu í tveimur þeirra.

Pétur var með 7,3 stig og 4,8 fráköst að meðaltali á 16,0 mínútum í deildarleikjunum og 3,5 stig og 2,2 fráköst að meðaltali á 9,3 mínútum í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×