Körfubolti

Mike Brown ætlar ekki að láta Lakers spila þríhyrningssóknina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Brown.
Mike Brown. Mynd/AP
Mike Brown, nýráðinn þjálfari Los Angeles Lakers, var kynntur í gær og hann ætlar greinilega í aðra átt með liðið en Phil Jackson sem hefur þjálfað Lakers undanfarin sex ár. Brown tók það fram á blaðamannafundinum að Lakers væri enn liðið hans Kobe Bryant.

„Þetta er ennþá liðið hans Kobe Bryant og við munum passa upp á það að hann fái áfram boltann á sínum uppáhaldsstöðum. Hann skilur vel mína sýna á framtíð liðsins og hann er með mér í þessu," sagði Mike Brown en hann talaði jafnframt að fyrsti fundur sinn með Kobe Bryant hafi gengið mjög vel.

Bryant, Derek Fisher og Andrew Bynum vildu allir að Brian Shaw yrði ráðinn en eigendurnir, feðgarnir Jerry Buss og Jim Buss, réðu hinsvegar Mike Brown. Brown fór strax í að slökkva elda og sagðist hafa talað við Bryant og konu hans Vanessu, Fisher og hans konu, Pau Gasol, Bynum og Ron Artest.

Brown ætlar ekki að breyta mikið leikmannahópi Lakers. „Ég trúi því að þetta sé kjarninn sem við getum byggt liðið á," sagði Mike Brown en hann ætlar aftur á móti að breyta leikskipulaginu.

„Við munum ekki spila þríhyrningssóknina en við tökum eitthvað úr henni að útfærum í okkar leik," sagði Brown sem ætlar að leggja upp með varnarleik eins og þegar hann þjálfaði Cleveland-liðið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×