Körfubolti

Fá leikmenn Dallas ekki meistarahringa?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mark Cuban hefur átt meirihluta í Dallas Mavericks frá árinu 2000
Mark Cuban hefur átt meirihluta í Dallas Mavericks frá árinu 2000 Mynd/AP
Mark Cuban eigandi Dallas Mavericks sem varð NBA-meistari á dögunum segist ekki ætla að láta framleiða hringa fyrir leikmenn sína. Sigurvegarar í NBA-deildinni hafa frá upphafsárum deildarinnar fengið hringa frá eigendum sínum sem tákn um afrekið. Cuban segir hringa vera gamaldags.

Í viðtali á heimasíðu NBA-deildarinnar segir Cuban:

„Tími hringanna er liðin. Það er kominn tími til að taka þetta upp á næsta stig," en talið er að Cuban ætli að gefa leikmönnum sínum eitthvað ennþá eftirsóknarverðara að sínu mati.

Leikmenn Dallas eru ekki sammála sjónarhorni eigandans.

„Við verðum að ræða þetta við hann," segir Dirk Nowitzki verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar. „Það getur ekki verið búið að ákveða þetta. Hann vill alltaf gera eitthvað öðruvísi, eitthvað merkilegra, en hringurinn er sígildur," bætti Nowitzki við.

Þjálfarinn Rick Carlisle sem á hring frá sigri Boston Celtics árið 1986 er sammála.

„Við verðum að fá hringa. Ég veit ekki hvað hann er að spá. Maður verður að fá hring þegar maður vinnur deildina. Ef hann vill gefa leikmönnunum eitthvað meira, þá er það frábært," sagði Carlisle.

Cuban er þekktur fyrir að fara sínar eigin leiðir. Til að mynda var hann einn af tveimur eigendum NBA-liðs sem greiddu atkvæði gegn flutningi Seattle Sonics, nú Oklahoma City Thunder, frá Seattle árið 2008. Hinn var Paul Allen, eigandi Portland Trail Blazers, sem býr í Seattle og á meðal annars NFL-liðið Seattle Seahawks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×